140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:54]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það hefði breytt þessu máli mjög mikið ef það hefði verið betur undirbúið þegar það var sent til Alþingis til umsagnar, meðferðar og ákvörðunar. Hví segi ég það, virðulegi forseti? Jú, vegna þess að eins og málið var lagt fram mátti vera ljóst og það gat engum dulist að það mundi kalla fram mjög hörð viðbrögð allra þeirra sem starfa í sjávarútvegi. En það mundi ekki síður kalla fram hörð viðbrögð þeirra sem eru í forustu fyrir sveitarstjórnir víðs vegar um landið vegna þess að ef frumvarpið hefði farið hér í gegn óbreytt, eins og lagt var upp með, hefði það svo augljóslega valdið mjög þungum búsifjum hringinn í kringum landið.

Hvernig hefði átt að standa að frumvarpinu, virðulegi forseti? Ég tel að hæstv. sjávarútvegsráðherra hefði átt að senda hugmyndir sínar, án þess að lýsa þeim út í hörgul, til háskólasamfélagsins og til þeirra sem starfa í greininni, sem hafa besta og gersta þekkingu á þessum málum, og kalla eftir viðbrögðum, kalla eftir umsögnum, taka þetta saman. Og þegar frumvarpið kæmi fram væri búið að lýsa því til hvaða athugasemda hæstv. ráðherra vildi taka tillit og hvernig þess sæist stað í frumvarpsdrögunum og við hvaða athugasemdum hæstv. ráðherra vildi ekki bregðast og þá rökstuðninginn fyrir því. Þannig búið hefði málið fengið allt öðruvísi umfjöllun í þinginu og átökin hefðu ekki orðið jafnharkaleg og raun ber vitni.

Það er ákveðin hætta fólgin í því þegar lagt er af stað með þær hugmyndir að setja fram reiknireglu um það hvernig afkoma í greininni myndast. Hættan felst í því að í staðinn fyrir að leita að hagkvæmustu lausnunum fari menn um of að horfa á reikniregluna og hvernig hún kemur sem best út fyrir viðkomandi rekstur. Það getur leitt til niðurstöðu sem er fjarri því að hámarka hag þjóðarinnar af auðlind sinni. Það getur til dæmis leitt til þess að menn dragi úr fjárfestingum og tækniþróun en reiði sig frekar á að auka vinnuaflið og halda um leið niðri launum. Það er viss hætta á slíku þegar búið er að setja upp einhvers konar reikniformúlur sem menn ætla að nota til að meta hvernig áhrif þær hafa á reksturinn.

Þess vegna held ég að það sé miklu affarasælla, ef menn ætla sér á annað borð að setja eitthvert svona gjald á, að miklu einfaldari háttur verði hafður á við álagningu slíks gjalds vegna þess að sú aðferðafræði og hugmyndafræði sem að baki lá var að grípa ætti utan um auðlindarentu. Sú aðferð sem þarna kemur fram grípur ekki utan um auðlindarentuna. Ég held að langflestir hv. þingmenn séu nú sammála því og það hefur komið fram hjá fræðimönnum sem skoðað hafa málið, þar á meðal prófessorum í þessum fræðum við Háskóla Íslands, að þessi reikniformúla gerir það ekki. Þá er betra að sleppa slíkum reiknikúnstum og hafa gjaldtökuna einfalda.

Ég er þeirrar skoðunar og ég hef lýst henni, að til lengri tíma litið varðandi arðinn af þessari auðlind njóti þjóðin þess best að annars vegar sé fjárfest í greininni og haldið áfram að þróa greinina og styrkja samkeppnisstöðu hennar við annan sjávarútveg og annan matvælaiðnað á erlendum mörkuðum, ég tel að þannig njóti þjóðin ávaxta af auðlindinni með því að arðsemin eykst. Hins vegar tel ég að sá umframarður sem verður til í greininni — og reyndar fer þetta saman, þ.e. fjárfestingar í því að bæta tækni — renni um leið út úr kjarnagreininni inn í ýmis iðnfyrirtæki, tæknifyrirtæki. Það er ekki tilviljun að Samtök iðnaðarins hafa gert mjög alvarlegar athugasemdir við þetta frumvarp. Hins vegar er eðlilegt, sem reyndar er auðvitað meira umdeilt og maður hefur heyrt ýmsar skoðanir á því, að sá auður sem verður til eftir að þessum fjárfestingum sleppir renni í aðrar áttir, að fjárfest sé í öðrum greinum. Með því verða til fjárfestingar og þá verða til störf og tækifæri. Með því að auður í samfélaginu vex smám saman verða til tækifæri fyrir sífellt fleiri. Það er einmitt mergur málsins og það er rangt að halda því fram að eina leiðin fyrir þjóðina til að njóta arðs af fiskveiðiauðlindinni sé sú að ríkið taki allan arðinn eða stóran hluta hans til sín. Það er bara röng hugsun að mínu mati.

Ég vil aðeins gera hér að umtalsefni orðræðuna og umræðuna sem á sér stað um þessi mál. Ég verð að segja eins og er að það veldur mér nokkrum áhyggjum þegar verið er að ræða þessa hluti hversu stutt er í það hjá mörgum hv. þingmönnum og reyndar víða í samfélaginu að grípa til slagorða á borð við sérhagsmuni, sérhagsmunagæslu, kvótagreifa o.s.frv. Ég tel að þegar menn horfa á þær röksemdir sem færðar hafa verið fram gegn þessari gjaldtöku blasi við að sú hugsun sem að baki er, þ.e. hugsunin um almannahagsmuni og hvernig íslensku þjóðinni reiði best af, hvernig við nýtum best auðlindir okkar og með hvaða hætti. Menn eru sammála um markmiðin, menn eru sammála um að við viljum að hagur þjóðarinnar eflist jafnt og þétt en menn eru ósammála um leiðirnar.

Þegar mikill og stór hópur sveitarstjórnarmanna skrifar undir áskorun til ríkisstjórnarinnar og Alþingis um að breyta þessum málum er það ekki vegna þess að allir þessir einstaklingar, nafngreindir einstaklingar, einstaklingar sem hafa notið trúnaðar og trausts í heimabæjum sínum, ganga erinda einhverra ákveðinna manna heldur gera þeir það fyrst og fremst til að gæta að hagsmunum heildarinnar, til gæta að hagsmunum byggðarlaga sinna. Eða eru menn virkilega þeirrar skoðunar að það sé í lagi að halda því fram að bara af því að menn eru ósammála ríkisstjórninni, bara vegna þess að menn eru ósammála þessum frumvörpum sé þar með hægt að stimpla viðkomandi einstaklinga og kalla málflutning þeirra einhvers konar hræðsluáróður eða hagsmunagæslu? Auðvitað er það ekki svo.

Ég tók eftir því, virðulegi forseti, á þeim útifundi sem haldinn var á Austurvelli að þar voru haldnar ræður sem voru bæði efnislega góðar og ágætlega rökfastar. En á meðan á ræðuhöldunum stóð var stanslaust púað og hrópað. Mér fannst það nokkuð táknrænt. Ég er þeirrar skoðunar að þegar menn grípa til slagorðanna og orðaleppanna og þegar menn byrja að púa og hrópa hafi rökin þrotið. Við eigum að rökræða hér inni og það er sjálfsagt að rökræða um hvaða afleiðingar þetta hefur í för með sér. En við eigum að geta verið sammála um það, allir hv. þingmenn, að við viljum reyna að tryggja sem best hag allrar þjóðarinnar. Ég er ósammála þeirri hugsun og þeirri skoðun að það verði best gert með því að hækka skatta og álögur á einstakar atvinnugreinar.

Af því að spurt var um afkomu í sjávarútvegi blasir tvennt sem menn sjá þegar þeir skoða afkomutölur: Annars vegar að afkoman í greininni breyttist mjög eftir að kvótakerfið var tekið upp, eftir að séreignarréttarkerfi í sókninni var tekið upp og sérstaklega eftir að viðskipti með aflaheimildir voru leyfð. Það er reyndar eitt af þeim fáu verkum sem ég styð sem vinstri stjórnin stóð að á sínum tíma.

Hins vegar er áberandi að það koma löng tímabil þar sem afkoman er ýmist óviðunandi, rétt við núllið eða jafnvel neikvæð, þannig að stundum árar vel og stundum illa. Sumir horfast ekki í augu við það og segja: Nú þarf að grípa í af því að afkoma sjávarútvegsins er svo góð. En þá kemur upp sú spurning: Hvað var þá sagt þegar afkoman var vond, þegar gengið var allt of hátt skráð, þegar skera þurfti harkalega niður og eignir fólksins úti um allt land hrundu í verði? Menn sátu fastir í húsum sínum, atvinnulausir, við þessar erfiðu aðstæður. Ég man ekki eftir því að þá hafi verið staðinn vörður um að gerðar yrðu einhverjar sérstakar ráðstafanir fyrir sjávarútveginn, enda var rétt að gera það ekki, mönnum var ætlað að þreyja þorrann og þeir gerðu það. En þá er svolítið umhendis að segja að þegar vel gengur eigi það allt saman meira og minna að renna í ríkissjóð. (Forseti hringir.) Ég vildi taka það fram og vona að hv. þingmenn hafi það í huga, virðulegi forseti.