140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:05]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu en ég held að áhyggjur hans af því að auðlindarentan sé ekki tekin með þeirri aðferð sem notuð er í frumvarpinu séu ástæðulausar. Norðmenn nota sömu aðferð og eru flestum þjóðum færari í því að tryggja almenningi hlutdeild í auðlindarentunni. (Gripið fram í.) Með sama hætti reikna þeir skatta á orkufyrirtækin í landi sínu eins og gert er hér í þessu frumvarpi um sjávarútveginn.

Í öðru lagi hafði þingmaðurinn áhyggjur af því að frumvarpið mundi hafa áhrif á hegðan manna í fyrirtækjunum sem tæki þá mið af þeim reiknireglum sem settar hefðu verið. Það eru sömuleiðis ástæðulausar áhyggjur vegna þess að reiknireglurnar eiga við um greinina í heild sinni en ekki einstök fyrirtæki. Þetta er ekki skattlagning á einstök fyrirtæki. Það er því lítil hvatning til þess að haga sér í rekstri sínum til að hafa áhrif á leikreglurnar því að hvert og eitt fyrirtæki getur lítil áhrif haft á reiknireglurnar. Þess vegna er það ekki hvatning til undanskota heldur þvert á móti rík hvatning til þess að menn hagræði svo sem kostur er því að gjaldið er lagt almennt á greinina alla.

Það er auðvitað hægt að nota fleiri aðferðir við að ákvarða auðlindarentu og ein þeirra er að gera það á markaði. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann teldi það vera farsælli leið að láta útgerðarmennina bara bjóða í aflaheimildirnar á markaði og hvað hann héldi að verðmyndunin mundi þá verða á hinum frjálsa markaði á hverju kílói aflaheimilda á ári, hvað menn væru tilbúnir til að borga fyrir það einkaleyfi, hvort það væru 50 kr., 100 kr., 200 eða 300 kr. eins og við höfum séð á leigumarkaðnum á köflum.