140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:07]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst er til að taka að ég og hv. þm. Helgi Hjörvar erum mjög ósammála um þá grundvallarspurningu hvort um sé að ræða eignarréttindi á sókn eða ekki. Verðmæti kvótanna í viðskiptum endurspeglar væntingar manna um framtíðarhagnað en það hefur gerst þannig núna á töluvert löngum tíma að greinin hefur verið að kaupa út þá sem voru með óhagkvæmar útgerðir, gerði það á sínum tíma, þannig að sóknargetan minnkaði og menn borguðu fyrir það. Menn borguðu sem sagt öðrum fyrir að hætta og þeir fjármunir runnu að stórum hluta til dæmis til lánastofnana sem voru í eigu íslenska ríkisins, Landsbankans, Útvegsbankans á sínum tíma o.s.frv.

Síðan hafa menn verið að skuldsetja sig til að auka hagkvæmni í greininni eins og kom fram hjá einum ágætum hv. þingmanni að af þessum u.þ.b. 400 milljarða skuldum er einungis lítill hluti, kannski 20–30 milljarðar, vegna fjárfestinga utan greinarinnar sem bendir til þess, virðulegi forseti, að greinin hefur nú þegar — og það sést í gegnum skuldastöðuna — verið að fjárfesta til framtíðar til að auka verðmæti. Þess vegna er sú spurning sem hv. þingmaður leggur fram um það hvert verðið yrði ef þetta yrði allt saman boðið upp — til að fá eitthvert mat á auðlindarentunni með þeim hætti yrðu menn að horfa fram hjá þeim kostnaði sem nú þegar hefur verið lagður í það að mynda þessa auðlindarentu.

Enn og aftur, sú aðferð sem er í frumvarpinu og var lögð til grundvallar við að meta auðlindarentu hefur fengið algjöra falleinkunn hjá þeim sem hafa skoðað þetta mál og hafa til þess sérþekkingu. Hitt er annað mál þegar um er að ræða auðlind eins og t.d. í Noregi þar sem ríkið getur sagt með sanni að þar sé um að ræða ríkisauðlind, eins og er með olíuna þar og orkuna þar sem, eins og hjá okkur, ríkisnýtingarsaga er mjög sterk. Þar gilda bara önnur sjónarmið.