140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:11]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er einmitt mergurinn málsins. Ég er þeirrar skoðunar og flutti fyrir því rök í fyrstu ræðu minni að um væri að ræða eignarréttindi á sóknarréttinum en hins vegar hefði íslenska ríkið algjöran fullveldisrétt yfir fiskstofnunum og gæti tekið ákvarðanir um heildarafla og annað slíkt. Síðan bæri að nýta þessa stofna og það væri hlutverk ríkisins að tryggja það að sem mestur afrakstur skilaði sér til þjóðarinnar og þar erum við hv. þingmaður ósammála um hvernig það gerist og með hvaða hætti það gerist best.

Ég hjó eftir einu. Ég hjó eftir því þegar hv. þingmaður talaði um hver ætti veiðiréttinn, þá sagði hv. þingmaður, virðulegi forseti: Almenningur og ríkið. Nú er málið það að hér hefur gjarnan verið talað um þjóðareign og hv. þm. Skúli Helgason var spurður að því fyrr í dag hvað hann ætti við með hugtakinu þjóðareign og hann sagði að þar væri verið að ræða um ríkiseign sem ekki mætti framselja. Í máli hans kom hvergi fram sú hugmynd að einhvers konar önnur almannaeign væri þar fyrir utan. Ég held að það sé einmitt málið. Hér er bara um að ræða ríkiseign og ekkert annað. Svo geta menn haft mismunandi reglur um það hvort framselja megi þær eða ekki og um þetta snýst deilan að hluta.

Hvað varðar krónutölu í þessu gjaldi er það alveg rétt sem hv. þingmaður bendir á að við tveir erum ósammála um það hvernig þessi eignarréttur hefur myndast og hvernig auðlindarentan hefur myndast. Ég endurtek: Allar þessar æfingar, þær reiknikúnstir um það hvernig á að leggja á auðlindagjald þegar svo augljóst er að það gjald grípur ekki utan um auðlindarentuna, þær eru allar gagnslausar.

Ég er þeirrar skoðunar að sjávarútvegurinn eigi að greiða fyrir alla þá þjónustu og eigi að greiða það upp í topp sem hann nýtur af hálfu ríkisins, hafrannsóknir, fiskveiðieftirlit og annað slíkt, hann á auðvitað að greiða það, það er eðlilegt. Ég er síðan þeirrar skoðunar að þjóðinni gagnist það best að arðurinn verði síðan eftir í þessum fyrirtækjum, það gagnist best fyrir landsbyggðina og hinar dreifðu byggðir og þjóðina alla að þannig sé að þessu staðið frekar en að þetta renni inn í ríkissjóðinn og ég og hv. þingmaður förum að véla um þá fjármuni.