140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:35]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi umfjöllun RÚV sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni í ræðu sinni þá er svo sem hægt að segja frá því að kannski hafi verið brotið í blað í sögu Spegilsins, þess merka útvarpsþáttar, því að þessa stundina á sér þar stað samtal við sérfræðing atvinnuveganefndar, Daða Má Kristófersson, þar sem hann fer yfir afleiðingar frumvarpanna á byggðir í landinu, sjávarútvegsbyggðirnar, og sjávarútvegsfyrirtækin og fer yfir það sem hann telur vera ágalla á því kerfi. Kannski hafa þeir vaknað til lífsins þarna á RÚV og áttað sig á því að kominn væri tími til að veita innsýn í umræðuna á málefnalegan hátt en vera ekki bara í því sem þeir hafa verið í síðustu daga og vikur. Það er alla vega mjög áhugavert þetta viðtal sem ég náði að mestu leyti að heyra áðan.

Hv. þm. Björn Valur Gíslason kom inn á það hér áðan að arðsemi hefði loks aukist í sjávarútvegi og að fyrirtækin hefðu ekki getað endurnýjað sig með eðlilegum hætti. Nú geta þau það. Heimaeyin er til dæmis nýlega komin. Það hefur líka verið nefnt í tengslum við þær skerðingar og þau útgjöld sem eru boðuð í frumvörpunum að fjórða hvert ár þurfi Útgerðarfélagið Vísir í Grindavík að láta ríkið fá nýja Heimaey. Annað hvert ár þurfi Vísir að smíða fyrir sig nýjan línubát og láta hann til ríkisins. Þannig virka þessi frumvörp í reynd í dag, þessar yrðu afleiðingarnar fyrir útgerðina. Ég vildi heyra álit hv. þingmanns á því hvaða afleiðingar hann telur þetta hafa á fjárfestingar og endurnýjun skipaflota útgerðarinnar.