140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:39]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þingmaðurinn fór aðeins yfir fundinn á Austurvelli í ræðu sinn. Það var mjög áhugaverður fundur en boðað hafði verið til mótmæla gegn þeim áformum ríkisvaldsins að leggja þvílíkar álögur á sjávarútvegsfyrirtækin og byggðirnar í landinu að þau muni ekki geta risið undir því.

Ég var líka þarna úti í dag og það sem sló mig var sú gjá sem sannarlega hefur myndast á milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins og hefur reyndar verið að myndast í langan tíma. Það endurspeglast reyndar oft og tíðum í orðræðu í þingsal í ýmsum málum. Hún var býsna breið þarna úti því að þar var líka hópur sem mótmælti mótmælafundinum og gerði að mönnum stöðug hróp allan tímann, það var sama hver talaði og um hvað. Mér skildist að sá hópur hefði komið þarna saman til að mótmæla LÍÚ en það skipti engu máli hver talaði. Þegar sveitarstjóri í litlu sjávarplássi úti á landi talaði voru gerð hróp að honum og þegar sá ágæti sveitarstjóri rakti hver áhrif frumvarpanna yrðu á landsbyggðina var hrópað: Niður með landsbyggðina. Ég verð að segja eins og er að það fór um mig hrollur og allt að því ótti yfir því að þessi gjá væri að dýpka svo mjög.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála mér um að þetta sé allt á ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna sem hafa gengið fram með offorsi og öfgum, ekki bara í þessu máli heldur í fleiri málum, t.d. í Evrópusambandsmálinu þar sem þjóðin hefur sannarlega verið klofin í tvær fylkingar, og þarna sjáum við afleiðingarnar, gjá sem erfitt verður að brúa aftur.