140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:59]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held það sé mjög mikilvægt að við ræðum það hvernig þessi umræða hefur þróast. Það hvernig umræða um þetta mál hefur verið afvegaleidd varðar ekki bara þetta tiltekna mál sem við ræðum núna heldur er hætt við því að stjórnmálaumræða, umræða um mikilvæg hagsmunamál þjóðarinnar, fari í auknum mæli að snúast um svipaða hluti ef við þingmenn sammælumst ekki um það að reyna að bæta þar úr, og vonandi gera það flestir. Við þurfum að ræða þessi mál út frá rökum og staðreyndum en ekki ímyndarherferð eins og ríkisstjórnin hefur reynt að gera í þessu máli.

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður sé sammála mér um það að við ættum að láta það okkur (Forseti hringir.) að kenningu verða, þingmenn almennt, hvernig þessi umræða hefur afvegaleiðst og reyna þá að læra af því, ekki bara fyrir sjávarútvegsmálin heldur í öðrum málum líka.