140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:01]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel allar forsendur hafa verið fyrir því að þessi umræða hefði getað verið mjög málefnaleg. Stundum hefur hún líka verið það, ég ætla ekki að halda því fram að hún hafi öll verið á þann veg sem ég tók dæmi um.

Í fyrsta lagi voru lögð fram frumvörp þar sem vissar andstæður kristölluðust, gagnstæð sjónarmið. Þar með var hægt að segja sem svo að búið væri að leggja grunn að einhverri umræðu þar sem menn gætu togast á um þau gagnstæðu sjónarmið. Hitt sem vakið hefur athygli mína í þessu er að umsagnaraðilar, sem hafa komið fyrir atvinnuveganefnd eða sent henni umsagnir, hafa lagt svo mikið í þetta. Þetta eru svo vönduð gögn. Það eru úttektir, þetta er ekki bara einblöðungur eða fáein almenn orð á blaði, þetta er byggt á vönduðum úttektum frá lögfræðingum, endurskoðendum o.s.frv. Menn hafa sem sagt gert sér grein fyrir því að hér væri mikið í húfi og að menn þyrftu að vanda sig og þess vegna voru öll efni til þess að hér gæti farið fram efnismikil umræða. Ég tel reyndar (Forseti hringir.) að þannig umræða, t.d. um veiðigjaldið og reyndar stjórn fiskveiða, hafi farið fram í atvinnuveganefnd en hún hefur einhvern veginn ekki skilað sér alveg inn í umræðuna hér.