140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:02]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Nú sitjum við báðir í atvinnuveganefnd og höfum þar af leiðandi verið á sama báti að skoða þessi mál í nefndinni. Ég vil spyrja þingmanninn út í þann hluta ræðunnar þar sem hann ræddi um hóflegt veiðigjald og þær hugmyndir sem við höfum svo sannarlega farið yfir í fyrri ræðum. Er hv. þingmaður sammála mér um að frumvarpið sé hálfgerð hrákasmíð að því leyti að aðferðafræðin gengur einfaldlega ekki upp? Felst ekki í þeirri niðurstöðu meiri hlutans að leggja fram breytingartillögu um að færa verkefnið til veiðigjaldsnefndarinnar og útfæra aðferðafræðina upp á nýtt, í raun viðurkenning á því að þetta gangi ekki upp, að það þurfi sérfræðinga til þess að finna rétta leið til þess að meta rentuna? Það kemur bersýnilega og vel fram í greinargerð Daða Más Kristóferssonar og Stefáns B. Gunnlaugssonar að þeir gagnrýna mjög aðferðafræðina sjálfa.

Það virðist hafa verið hugmyndin hjá þeim sem smíðuðu frumvarpið að veiðigjaldið væri einhvers staðar í kringum 24 milljarða þó að það hafi endað í 50 milljörðum og 140% skattlagningu. Síðan hafa menn sagt að með ýmsum aðgerðum og breytingartillögum sé talan orðin 15 milljarðar. Meðal annars er tekið tillit til skuldsettra fyrirtækja. Hin spurning mín er þá kannski sú hvort þingmanninum finnist það í sjálfu sér sanngjarnt. Getur það hugsanlega haft þær afleiðingar að fyrirtæki sem ekki eru skuldsett greiði veiðigjald eins og um væri að ræða 25 milljarða veiðigjald, vegna þess að hlutfallslega taki þau miklu stærri hluta á sig? Er sanngjarnt af ríkisvaldinu að setja þann hluta yfir á fyrirtæki sem hafa farið varlega í fjárfestingum?