140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni ræðu hans. Hv. þingmaður sagðist hafa staðið í hópnum úti á Austurvelli áðan og áttað sig á því að þarna voru sjómenn að mótmæla því að frumvarpið sem hér um ræðir hefði áhrif á launakjör þeirra og það þóttu hv. þingmanni gríðarleg tíðindi.

Þetta er gömul saga og ný. Um þetta hafa deilur af þessu tagi alltaf staðið, ætíð og ævinlega. Um hvað stendur núverandi kjaradeila útgerðarmanna og sjómanna? Hún stendur nákvæmlega um þetta, að fá sjómenn til að taka aukinn þátt í rekstri skipanna, í rekstri útgerðarinnar, núna í augnablikinu aukinn þátt í olíukostnaði. Ég hljóp hér fram meðan hv. þingmaður var að tala og prentaði út efni um kjaradeilu frá 1994, bara fyrir tilviljun. Um hvað snerist hún? Hún snerist nákvæmlega um þetta, menn voru að reyna að koma í veg fyrir það að útgerðir neyddu áhafnirnar til að kaupa kvóta á sínum tíma.

Þetta er nákvæmlega það sama og engin ný tíðindi, um þetta hafa alltaf staðið deilur. Fyrir þessu hafa sjómenn alltaf þurft að berjast, í hvert einasta skipti. Það má kannski geta þess að árið 1994 var deilan leyst með bráðabirgðalögum á Alþingi. Ég man ekki hvort hv. þingmaður sat á þingi á þeim tíma, en þetta var eitt af þeim fjölmörgu skiptum sem kjaradeila sjómanna var leyst með bráðabirgðalögum og þeir sendir út á sjó í skjóli þeirra laga.

Hvers vegna ætti sú hótun að vera virk núna að sjómenn eigi að taka þátt í þessum kostnaði þegar það liggur fyrir samkvæmt frumvörpunum ásamt breytingartillögunum, verði það gert að lögum, að afkoman sem eftir verður í útgerðinni, í greininni, sú þriðja mesta í sögu íslensks sjávarútvegs? Aðeins tvisvar áður mun það hafa gerst að arðurinn hafi verið meiri en væntanlega verður í ár, ef lögin taka gildi. Hvers vegna ætti þá að krefja sjómenn um að taka þátt í þeim launakostnaði ef það hefur ekki verið gert áður af sömu ástæðu? Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvað sker þessa deilu frá öðrum hvað þetta varðar?