140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:12]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég ætla að halda aðeins áfram umræðu sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hóf áðan um þá umræðu sem farið hefur fram um þessi frumvörp undanfarna daga af hálfu stjórnarliða. Ég nefndi reyndar í andsvari við hv. þm. Einar K. Guðfinnsson að mér þætti tilefni til þess fyrir þingið að nota þetta sem tækifæri til að þingmenn allir lærðu af þessu máli og nýttu þann lærdóm til að fara betur yfir mál í framtíðinni. Þar reyndi ég að fara bil beggja, að vera kurteis, skulum við segja, í garð hv. stjórnarliða, vegna þess að auðvitað hafa það fyrst og fremst, og eiginlega eingöngu, verið stjórnarliðar sem hafa kosið að ræða þetta mál út frá allt öðru en rökum.

Fáir hv. stjórnarliðar hafa treyst sér til að koma hér og verja greinar frumvarpsins, færa fyrir því rök að öll þau fjölmörgu álit sem borist hafa Alþingi vegna þessa máls, formleg álit, meðal annars álit sérfræðinga sem hv. atvinnuveganefnd bað sjálf um, séu öll röng. Þess í stað hafa stjórnarliðar brugðist við með því að uppnefna menn, búa til grýlu — þeir telja raunar að sér hafi orðið töluvert ágengt í því að búa til grýlu úr LÍÚ og þegar þeirri vinnu var lokið reyndu þeir að setja sem flesta undir þann hatt, flokka alla sem leyfðu sér að gagnrýna þetta frumvarp sem einhvers konar talsmenn LÍÚ í málinu. Þá skipti engu máli hversu margir það voru, hversu fróðir þeir voru um þessi mál, hvers lags rök þeir höfðu fram að færa, hvaða hópum þeir tilheyrðu, hvort það var verkafólk í landi, sjómenn eða sérfræðingar, nei, allir sem leyfðu sér að gagnrýna stefnu ríkisstjórnarinnar voru skilgreindir sem gæslumenn sérhagsmuna. Þar með eru væntanlega sveitarstjórnir um allt land, fulltrúar fólksins sem þar býr, gæslumenn sérhagsmuna, þeir sérfræðingar sem fengnir voru til að meta málið eru gæslumenn sérhagsmuna og jafnvel ASÍ líka. Þeir sem leyfa sér að gagnrýna stjórnvöld og þau frumvörp sem fulltrúar stjórnarliðsins treysta sér ekki einu sinni til að verja sjálfir, eru skilgreindir sem fulltrúar sérhagsmuna.

Þannig leyfa menn sér að fara í umræðu um þetta mikilvæga hagsmunamál, grunnatvinnuveg þjóðarinnar, út frá uppnefningum einum saman og ofnotuðum frösum, sem eru nú reyndar þekktir úr íslenskri stjórnmálasögu en hafa flestir legið í dvala frá því á millistríðsárunum. En það er eins og sumir hv. þingmenn stjórnarliðsins séu nýstignir út úr tímavél á leið af fundi hjá kommúnistaflokknum á millistríðsárunum, þannig er málflutningurinn.

Undir þann málflutning er ýtt, ekki bara úr ræðustól Alþingis heldur einnig í fjölmiðlum. Það var sama þó að hátt á fimmta hundrað manns kæmu saman til fundar í Vestmannaeyjum, sjómenn og landverkafólk, til þess að ræða frumvarp ríkisstjórnarinnar og gagnrýna það mjög harðlega í sameiginlegri samhljóða yfirlýsingu í lok fundar, litið var fram hjá því. En hv. þm. Skúli Helgason kom hins vegar hér upp og lýsti því yfir að útgerðarmönnum sem rækju sjávarútvegsfyrirtæki væri, eins og hv. þingmaður orðaði það, skítsama um starfsmenn sína. Það var sagt frá því í fréttum. Hins vegar var minna fjallað um fundinn í Vestmannaeyjum og þá fjölmörgu fundi sem haldnir hafa verið eða þær ályktanir sem komið hafa frá fólki sem starfar í sjávarútvegi og tengdum greinum.

Sjávarútvegur og velferð hans er nefnilega spursmál um hagsmuni þjóðarinnar allrar en ekki örfárra manna eins og gefið hefur verið í skyn, meðal annars af hæstv. forsætisráðherra. Störfum í sjávarútvegi hefur að vísu fækkað, þ.e. þeim sem vinna beint við greinina, en á hinn bóginn hefur störfum í tengdum greinum, í sjávarklasanum svokallaða, fjölgað. Það er jákvæð þróun en hún hefur eingöngu verið möguleg vegna þess að hér var komið á kerfi sem gerði mönnum kleift að búa til verðmæti úr þessari auðlind á sama tíma og aflaheimildir voru skornar niður ár eftir ár. Þær eru nú aðeins lítill hluti af því sem þær voru á árunum í kringum 1980 þegar sjávarútvegurinn var rekinn með viðvarandi tapi, þegar hann var baggi á ríkissjóði, þegar ríkið þurfti hvað eftir annað að vera að grípa inn í til þess að bjarga fyrirtækjum í sjávarútvegi, fella gengið til að halda sjávarútveginum gangandi, enda þótt menn veiddu þá miklu meira en þeir gera nú.

Þrátt fyrir samdráttinn í veiðum tókst að gera greinina arðbæra, ekki bara fyrir fyrirtæki sem starfa beint við sjávarútveg heldur fyrir fjöldann allan af tengdum greinum, þannig að sjávarútvegurinn hefur fjölgað störfum á Íslandi undanfarna áratugi með vexti sjávarklasans, eins menn kalla það. Öll þessi störf eru að sjálfsögðu háð því að hér sé rekið hagkvæmt og arðbært sjávarútvegskerfi, kerfi sem framleiðir raunveruleg verðmæti.

Ef menn taka úr sambandi þá hagkvæmni þannig að gat kemur á og það fer að flæða inn sökkva öll þessi fyrirtæki með og þar með tapast þúsundir starfa. Það er ekki bara tala sem ég nefni út í loftið, sérfræðingar sem reiknað hafa út áhrifin af þeim frumvörpum sem ríkisstjórnin hefur reynt að troða í gegn hafa komist að þeirri niðurstöðu að þau setji þúsundir starfa í uppnám. En þegar sérfræðingarnir skila niðurstöðu sem gengur gegn tillögum stjórnarflokkanna verður lítið úr öllum fyrirheitunum um fagleg vinnubrögð og mikilvægi þess að hlusta á þá sem best þekkja til á hverju sviði. Þá gleymist það mjög skyndilega vegna þess að öll fögru orðin sem höfð voru um breytt vinnubrögð í þinginu, vandaðri vinnubrögð, fagleg vinnubrögð, voru innihaldslaus. Innihald þeirra var því miður ekkert meira en innihald orðanna um sægreifana og hina illu útgerðarmenn, sem gefið er í skyn af hálfu stjórnarliðsins að séu það. Allt eru þetta innantóm orð.

Þegar menn ætla að ráðast í breytingar á grunnatvinnuvegi þjóðarinnar og gera það á svo veikum forsendum, eingöngu á innantómum orðum, annars vegar skömmum og uppnefningum og hins vegar fyrirheitum um fagleg vinnubrögð sem ganga svo ekki eftir vegna þess að ekki finnst einn einasti sérfræðingur sem er tilbúinn til að mæla tillögunum bót, hvernig bregðast menn þá við? Sjá þeir að sér og draga í land, eins og maður hefði haldið að þeir hlytu að gera þegar það blasir við þeim svart á hvítu hvers lags vitleysa hefur verið soðin saman hér? Nei, menn sjá því miður ekki að sér. Viðbrögðin verða þau að bæta enn í fúkyrðaflauminn, útvíkka samsæriskenningarnar þannig að heilu landshlutarnir og stéttirnar eru orðin þátttakendur í einhvers konar samsæri um hagsmunagæslu.

Sú nálgun gengur ekki lengur á þetta mál, frú forseti. Eftir umræðu dagsins í dag og dagsins í gær verða þingmenn stjórnarliðsins að fara að taka sér tak og ræða þetta mál út frá rökum. Þeir geta svo sem gert tilraun til þess að verja eitthvað af þeim breytingum sem þeir leggja til hér en það verður að gerast á grundvelli raka en ekki (Forseti hringir.) innihaldslausra uppnefninga.