140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:37]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Auðvitað sætir furðu að menn skuli nú bregðast við með þessum hætti, þ.e. með því að líta einfaldlega fram hjá öllum aðvörunum sérfræðinga, í ljósi þess hversu miklu eðlilegri og skynsamlegri viðbrögðin voru hjá að nokkru leyti sama fólki þegar aðrar hugmyndir en álíka óhagkvæmar voru til umræðu í sáttanefndinni. Munurinn er þó líklega sá að með vinnu sáttanefndarinnar hafði málið eðli máls samkvæmt verið sett í sáttafarveg. Þar ætluðu menn sér, helst allir og að minnsta kosti sem flestir, að ná sameiginlegri niðurstöðu. Kosturinn við samvinnu er sá að þegar menn einsetja sér að ná sameiginlegri niðurstöðu er mjög erfitt fyrir afmarkaðan hóp að reyna að keyra áfram mál sem stenst ekki skoðun af hálfu þeirra sem best þekkja til.

Það voru líklega stærstu mistökin við undirbúning þessa máls núna að vinna það ekki í breiðari hópi, annars vegar pólitískt og hins vegar með aðstoð sérfræðinganna sem þekkja best til og hefðu verið í stakk búnir til að reikna út áhrifin af tillögunum meðan málin voru í vinnslu.

En ég átti eftir að ljúka fyrra andsvari mínu, frú forseti. Hv. þingmaður benti á rök sem mjög hefur verið haldið á lofti, þ.e. að fiskurinn verði áfram veiddur og því þurfi menn ekki að hafa svo miklar áhyggjur af því hvort svo og svo mörg fyrirtæki fari í þrot. Þetta er að sjálfsögðu algjörlega fráleitur málflutningur enda verður af því mikið tjón þegar fyrirtæki verður gjaldþrota og það er miklu dýrara, erfiðara og tímafrekara að skapa hvert eitt nýtt starf (Forseti hringir.) en að viðhalda einu starfi sem þegar hefur verið skapað.