140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðu hans hér áðan. Það hefur verið talsvert rætt um það hér í dag í tengslum við þau mótmæli sem hafa verið úti á Austurvelli — eða hvað á að kalla það, jú, mótmæli voru það víst — að sjómenn væru að verja kjör sín, þeir væru að verja launin sín og það væri ástæðan fyrir því að þeir væru þarna úti með útvegsmönnum og öðrum, sveitarstjórnarfulltrúum og fleirum, og þeir teldu að þetta frumvarp mundi skerða kjör þeirra.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé sammála því. Nú veit ég að hann þekkir vel til greinarinnar og gerir út sjálfur og allt það. Munu sjómenn að hans mati verða látnir borga veiðigjaldið sem verður lagt á ef þetta frumvarp verður að lögum?