140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:58]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að það verður að skoða þau samfélagslegu áhrif sem frumvörpin hafa á fyrirtæki og byggðir eða í raun og veru á ríkissjóð í heild sinni og þar af leiðandi afkomu fólksins, þjóðarinnar, eins og sagt er.

Við skulum heldur ekkert horfa fram hjá því, og ég kom aðeins inn á það í ræðu minni, að við erum að ræða þessi mál samhliða. Það er búið að sýna aðeins á spilin í hinu málinu í þessari svokallaðri samningaviðleitnisnefnd eða hvað á að kalla hana. Við höfum fengið viðbrögð við frumvörpunum og erum að fara yfir umsagnir. Síðan er búið að gera breytingar á veiðigjaldafrumvarpinu og taka málið úr nefnd og sýna þær tillögur. Auðvitað þyrfti að skoða þær mun betur til að geta verið fullviss eða verið nær því að geta gert sér í hugarlund hvernig þær breytingar draga í raun og veru úr áhrifum á viðkomandi sveitarfélög því að það er mismunandi hvernig það er þó að búið sé að dempa þetta allt niður, það verður að viðurkennast.