140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:01]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er eitt af því sem ég kom inn á í ræðu minni, það er dálítið flókið að fanga rentuna bæði í veiðum og vinnslu og setja síðan yfir á útgerðir. Síðan eru sumar útgerðir með vinnslu og aðrar ekki og útgerðarflokkarnir mismunandi þannig að þetta er dálítið flókið. Þess vegna tók ég það aðeins fyrir í ræðu minni hvort ekki væri æskilegt að skoða það í framhaldinu hvort menn mundu setja hugsanlega bara krónutölu á viðkomandi tegund, úthlutuðu bara á hverja fisktegund fyrir sig og væru ekki að flækja ígildunum saman við það af því að þorskígildisstuðlarnir eru sumir hverjir gallaðir. Við munum það til dæmis í fyrra þegar við vorum að fjalla um makrílinn að hann var um 0,19 ígildi á móti þorski sem er þá 20% eða 1/5 af þorskinum en verðmætin voru kannski langt frá því — það var svo mikil skekkja á milli verðmæta og stuðla. Þetta þarf (Forseti hringir.) að skoða mjög vel í svokallaðri auðlindanefnd.