140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:03]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er þetta rétt ábending hjá hv. þingmanni og þetta er eitt af því sem ég kom inn á í ræðu minni. Það er líka varhugavert þegar við hækkum gjaldið svona tiltölulega bratt eins og verið er að gera núna að þá getur þessi skekkja haft miklu meiri áhrif en ef menn eru að hækka gjaldið í þrepum.

Ég nefndi það í ræðu minni að mér fannst þetta koma mjög skýrt fram á fundinum hjá Brimi í gær þar sem menn sýndu fram á að auðlindarentan í einni tegund fangaði til dæmis 172% en í annarri 13,6%. Meðaltalið er auðvitað eitthvert ákveðið vægi en skekkjan á milli tegunda er hins vegar hrópandi. Þar var ekki verið að fjalla um ágiskaðar tölur heldur bara rauntölur út úr rekstri fyrirtækisins. Þetta er auðvitað eitt af því sem verður að skoða mjög vandlega.

Síðan er spurning um hvort það eigi að setja krónutölu á viðkomandi tegund því að þá er auðvitað gerð sú krafa, alveg sama hver fær að veiða hana, að menn fái hámarksverðmæti út úr henni, hvatinn er í þá veruna.