140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það var vel til fundið hjá hv. ræðumanni að minnast á fund leiðtoga Þýskalands og Bretlands. Það sem er þar undirliggjandi er einmitt þetta: Til að bjarga evrunni verður að breyta Evrópusambandinu. Það verður að breyta því frá því Evrópusambandi sem Ísland og Alþingi ákváðu að sækja um aðild að, í allt öðruvísi samband. Sambandsríki skal það og verður að verða. Þess vegna er ástæða fyrir okkur Íslendinga að skoða þá stöðu sem upp er komin og horfast í augu við að vandamál evrunnar verður ekki leyst með öðrum hætti en þeim sem kanslari Þýskalands benti á. Í ljósi þessara breyttu aðstæðna er ástæða fyrir okkur að endurskoða ákvörðun okkar, gera hlé á aðildarviðræðunum og sjá hvert þetta leiðir, hvort búin verður til ný tegund af ESB eða evran fari endanlega út af sporinu, Grikkland hrekist úr evrunni eða lánsfjárkostnaður Spánar verði óviðráðanlegur. Enginn veit hvert sú atburðarás mun leiða. Það er ekki skynsamlegt við þessar aðstæður, hvort sem menn hafa þá skoðun að fara eigi inn í Evrópusambandið eða ekki, að halda áfram með aðildarumsókn. Það er rétt að leggja hana til hliðar og síðan verður það þjóðarinnar að taka afstöðu til þess hvort taka eigi aðildarviðræður aftur upp. En að halda áfram núna eins og ekkert hafi í skorist og láta eins og allt sé í himnalagi og Evrópusambandið sé hið sama og það var þegar við ákváðum á Alþingi að sækja um, er ekki skynsamleg afstaða og ekki samkvæmt hagsmunum Íslands. Við eigum að gera hlé, taka stöðumatið, leyfa þessum atburðum að ganga fram og leyfa síðan þjóðinni að ákveða hvort hún vilji halda áfram með umsóknina. (Forseti hringir.) Það er sú afstaða sem ég held að muni reynast okkur Íslendingum best.