140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

störf þingsins.

[10:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er að verða bráðskemmtilegt að heyra samfylkingarmenn koma hingað og ræða sjávarútvegsmál því það er alltaf sami söngurinn hjá þeim og hefur verið núna í býsna mörg ár. Eftir því sem þeir reyna að tala meira um þetta minnkar fylgið hjá þeim meira. Þessi svokallaði meiri hluti þjóðarinnar sem þeir tala um að sé að baki þeim í þessu máli virðist í það minnsta ekki styðja þá í ríkisstjórninni ef marka má kannanir á fylgi flokksins. (Gripið fram í: … Framsókn.) Ég held að það hljóti að vera áhyggjuefni fyrir flokkinn að eftir því sem þeir tala meira um sjávarútvegsmál þeim mun meira minnkar fylgið hjá þeim. Það verður því athyglisvert að fylgjast með þessu, frú forseti.

Það er líka sorglegt að heyra þessa sömu þingmenn tala niður til tugþúsunda Íslendinga sem vinna í sjávarútvegi og telja að þeir séu rödd LÍÚ eins og kom hér fram. LÍÚ eru frekar fámenn samtök sem skipta miklu máli í íslensku samfélagi því þau halda uppi mikilvægri atvinnustarfsemi en hafa tugþúsundir Íslendinga hjá sér í vinnu. Það er því athyglisvert þegar þingmenn tala niður til þessa fólks eins og hér er gert.

Það sem ég ætlaði hins vegar að ræða hér, frú forseti, er það sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson kom inn á. Skilaboðin utan úr Evrópu eru þau að nú þarf að búa til eitt evrópskt stórríki, ríki þar sem auðvelt er að stjórna hinum litlu fylkjunum sem verða í því stórríki því þau geta það greinilega ekki sjálf, að mati Þjóðverja að minnsta kosti og væntanlega Frakka og einhverra fleiri sem standa með þeim að þessu. Nú á að fara í meiri samruna en nokkurn tíma hefur sést. Til að bjarga evrunni og til að bjarga því sem bjargað verður í Evrópusambandinu, sem er vitanlega komið að fótum fram, þarf að taka eins og hægt er fullveldið af ríkjunum og koma valdinu í hendur þeirra sem stjórna í Brussel, fólki sem er ekki þjóðkjörið, fólki sem er ráðið sem einhvers konar málaliðar til að stýra málaflokkum í þessu sambandi. Það vill einn flokkur á Alþingi einna helst, að koma fullveldi Íslands í hendurnar á þessu stórríki sem er að verða til, (Forseti hringir.) stórríki sem er á fallanda fæti nú þegar.