140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

störf þingsins.

[10:50]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hinum ágætu þingmönnum sjálfstæðismanna fyrir að taka þátt í umræðunni um stöðuna í Evrópusambandsmálunum. Ég vil nota tækifærið til að halda því sérstaklega til haga sem ég sagði svo það sé ekki afvegaleitt. Ég sagði að því færi fjarri að umsóknarferlið gengi eitthvað hægt fyrir sig í samanburði við söguna. Þau lönd sem farið hafa hraðast inn hafa farið inn á rúmlega fjórum árum eftir að þau sóttu um aðild, það eru Finnland og Svíþjóð. (Gripið fram í.)

Við erum búin að vera í þessu ferli í tæplega þrjú ár þannig að það hefur gengið ágætlega. Ég sagði áðan að það væri nauðsynlegt að láta ekki undan pólitískri óþreyju og þrýstingi hérna heima um að hraða því umfram það sem eðlilegt og heppilegt er vegna þess sem er í deiglunni og vegna breytinganna sem eiga sér óhjákvæmilega og eðlilega stað á sambandinu og í álfunni allri út af efnahagságangi og hamförum síðustu ára út um allan hinn vestræna heim. Auðvitað bregst sambandið við því. Það bregst skynsamlega við því eins og fram kom á fundi leiðtoga Þýskalands og Bretlands í gær og ég vitnaði til í upphafi máls míns í morgun. Leiðtogarnir voru sammála um að meiri agi í ríkisfjármálum og meiri pólitískur samruni væri nauðsynlegur til að fyrirbyggja áföll eins og þau sem gengið hafa yfir á síðustu árum, það yrði til dæmis gert með auknum tryggingasjóðum og fleiri slíkum hlutum. Það eru gríðarlega mikilvægar fréttir frá meginlandi Evrópu og eru örugglega upphafið að farsælli lendingu í þessum málum. Þess vegna þurfum við að halda ró okkar og yfirvegun í umsóknarferlinu öllu. Við eigum alls ekki að hætta ferlinu. Það væri fráleitt og mikil afglöp, enda er þetta eins og forseti Íslands sagði í umræðuþætti í sjónvarpinu í gær, mikilvægasta málefni sem íslenska þjóðin hefur fengist við frá lýðveldisstofnun, þ.e. hvort hún á að gerast aðili að Evrópusambandinu eða ekki. Þess vegna er mikilvægt að landa (Forseti hringir.) sem allra bestum samningi og þess vegna eigum við að fara áfram varlega og af yfirvegun í gegnum ferlið. (Forseti hringir.) Við munum vonandi geta kosið um samninginn sem allra fyrst en við eigum að gæta þess að rasa ekki um ráð fram því að það einasta sem skiptir máli (Forseti hringir.) er að ná sem allra bestum samningi.