140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

störf þingsins.

[10:52]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir ummæli hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar um aðildarferlið og hvernig okkur ber að snúa okkur í þeim málum á þeim óróatímum sem nú ganga yfir Evrópu. Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins koma í ræðustól og stilla málum þannig upp að Evrópa glími við vanda vegna evrunnar. Það er mikil rangtúlkun. Ekkert skýrir það betur en staða Spánar sem nú er í miklum vanda, ekki vegna agaleysis í ríkisfjármálum, ekki vegna aðildar sinnar að evrunni heldur vegna þess að þeir eru að glíma við afleiðingar fjármálakreppu alveg eins og Íslendingar haustið 2008 og Írar sama haust. Með öðrum orðum, sá þáttur innri markaðarins sem lýtur að frjálsum fjármagnsflutningum er mjög gallaður eins og við bentum á 2008. Það vantar fjölþjóðlegt innstæðutryggingakerfi, það vantar fjölþjóðlegt bankaeftirlit og þar verður höfuðáherslan að vera núna af hálfu Evrópusambandsins, að vonum seinna, til að bæta úr þessum ágöllum. Við verðum að taka þátt í því ferli ef við ætlum að vera hluti af hinum innri markaði hvort sem við ætlum að halda áfram að bögglast með EES-samninginn eða gerast aðilar að Evrópusambandinu og taka upp evru.

Með öðrum orðum, bankasamband þar sem bankar lúta einu sameinuðu evrópsku regluverki og innstæðutryggingarsjóði sem tryggir innstæður þvert á landamæri, er forsenda þess að við getum sem þjóð haldið áfram að vera með opið hagkerfi og tekið þátt í frjálsum fjármagnsflutningum á hinum innra markaði Evrópusambandsins. Við verðum alltaf að vera hluti af því. Við stöndum nú þegar frammi fyrir því að við þurfum að innleiða bankaregluverk (Forseti hringir.) sem verið er að innleiða á hinu Evrópska efnahagssvæði og sem ekki stenst forsendur EES-samningsins eða stjórnskipulegar heimildir sem við búum við í dag. Við getum ekki lokað augunum fyrir (Forseti hringir.) þeim spurningum sem uppi eru í Evrópu í dag, það eru grundvallarspurningar um með hvaða hætti (Forseti hringir.) við getum yfir höfuð verið þátttakendur í hinu evrópska viðskiptaumhverfi. (Forseti hringir.) Svarið við því er óhjákvæmilega (Forseti hringir.) að það verður að vera í gegnum fulla aðild (Forseti hringir.) að þessum þáttum.