140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Þetta eru um margt gagnlegar umræður og væri hægt að setja á langar ræður bæði um Evrópusambandið sem og þann fund sem var úti í gær en mér heyrist að stjórnarliðar ætli ekki að hlusta á þær raddir sem bárust okkur þaðan úr öllum stéttum. En ég ætla ekki að eyða tíma mínum í að ræða það hér heldur ætla ég að ræða um styttingu opnunartíma Heilsugæslunnar í Vík í Mýrdal sem ég hef áður fjallað um undir þessum lið. Við þingmenn kjördæmisins áttum ágætan fund í morgun með forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og framkvæmdastjóra lækninga þar sem farið var yfir málið og var það ágætisfundur. Við þingmenn kjördæmisins vonumst til þess að fundin verði einhver önnur leið en að stytta opnunartímann en það gætu þurft að koma til auknar fjárveitingar frá okkur sem tökum ákvarðanir varðandi það. Ég auglýsi í raun eftir samstöðu þingmanna um að reyna að verja þessa þjónustu fyrir austan. Við þekkjum öll í þessum sal þá stöðu sem byggðirnar eru í Mýrdalshreppi og Skaftárhreppi og ég auglýsi eftir því hvað við ætlum að gera til að styrkja þessar byggðir.

Það fyrsta sem við getum gert er að grípa til aðgerða til að ekki þurfi að koma til þeirrar þjónustuskerðingar sem nú hefur verið boðuð. Ég hvet okkur öll til að beita okkur í því og vitna sérstaklega til orða til dæmis hv. þm. Marðar Árnasonar sem virðist hafa mikinn áhuga á að styrkja byggðirnar þarna austur frá. Ég vonast til þess að við berum gæfu til að grípa inn í áður en íbúarnir á þessu svæði þurfa að þola lokanir. Ég hvet okkur öll til dáða í því. Þó að við séum upptekin af því að tala um grundvallaratvinnuveg þjóðarinnar megum við ekki gleyma öðrum málum. Mig langar að hvetja okkur öll til þess (Forseti hringir.) að hlusta betur hvert á annað og eins á allar þær raddir sem berast okkur í umsögnum og frá þeim fundum sem haldnir eru hér fyrir utan húsið.