140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

lengd þingfundar.

[11:06]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég greiði hér á eftir atkvæði gegn því að heimild verði veitt til að lengja þingfund umfram það sem þingsköp gera almennt ráð fyrir, sem er til klukkan átta í kvöld. Ég held að í raun sé þýðingarlaust að efna til funda kvöld eftir kvöld, með undantekningu í gærkvöldi, þegar ekki liggur einu sinni fyrir nein starfsáætlun um störf þingsins næstu daga og vikur. Það liggur ekkert fyrir.

Fjöldi mála liggur fyrir sem eins og hv. þingmenn þekkja komu inn á elleftu stundu og mörg eru enn óafgreidd í nefndum. Spurningin er sú hvort við eigum að taka ákvarðanir, eins og um að efna til kvöldfunda á föstudagskvöldi, þegar við höfum ekki hugmynd um hvernig forusta þingsins hyggst skipuleggja þingstörfin á næstu dögum og eftir atvikum vikum.

Ég mun á þeim forsendum greiða atkvæði gegn tillögu hæstv. forseta.