140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:25]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni, við erum báðar kraftmiklir og háværir þingmenn þegar því er að skipta, ég og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, ef okkur liggur mikið á hjarta.

Mér finnst það athyglisvert að þingmönnum hættir til þess hér að vitna meira í umsagnir um frumvörpin en í frumvörpin sjálf. Þegar þingmaðurinn vitnar í umsagnir Daða Más Kristóferssonar og Stefáns B. Gunnlaugssonar er verið að vitna í almennar hugleiðingar þeirra um það hvað beri að leggja til grundvallar þegar lagt er veiðigjald á grein eins og sjávarútveginn. Sú aðferð sem notuð er tekur tillit til afkomu útgerðarinnar, dreginn er frá allur launa- og rekstrarkostnaður og meira að segja ávöxtun og eðlilegur arður, gert er ráð fyrir því og síðan er reiknað gjald á það sem út af stendur er eðlileg og sanngjörn aðferð.

Ég furða mig á því að þingmaðurinn skuli ekki vera tilbúin að ræða (Forseti hringir.) sjálfa aðferðina og vil því spyrja hana í framhaldinu: Hvaða aðferð vill hún nota ef ekki þá að taka tillit til afkomu greinarinnar?