140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:29]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla rétt að vona að það komi ekki til þess að íslenskur sjávarútvegur verði ríkisstyrktur. Segja má að hann hafi verið ríkisstyrktur um árabil þar til menn fóru í breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu, fyrst með skrefinu 1983. Við munum öll þá sögu þegar ríkið þurfti að hlaupa undir bagga langt fram eftir sjötta og sjöunda áratugnum með því að styrkja ýmis útgerðarfyrirtæki. Það breyttist með skynsamlegum breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu sem urðu til þess að íslenskur sjávarútvegur er nú rekinn með arðbærasta hætti í heimi.

Ég tel því mikilvægt og hef alltaf sagt að fyrirvarar mínir varðandi Evrópusambandið — hv. þingmaður veit að við erum á öndverðum meiði varðandi það atriði — séu að við klárum aðildarviðræðurnar. Þær eru reyndar komnar í ógöngur út af þessari vitleysu í ríkisstjórninni og þess vegna er mikilvægt að fá skilaboð frá þjóðinni, frá drjúgum meiri hluta þjóðarinnar, sem hægt væri að ná fram með almennum kosningum, um það hvort halda eigi áfram með aðildarsamningana. Mín skoðun í því máli er alveg skýr en ég tel réttast, til að höggva á þann hnút, að spyrja þjóðina með þingkosningum. Það er önnur saga.

Varðandi sjávarútveginn sem slíkan er alveg ljóst að sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins mun ekki henta Íslendingum og hentar ekki Íslendingum. Það er alveg ljóst. Þess vegna fylgist maður af miklum áhuga með því hvað er að gerast í Evrópusambandinu, ekki bara á grundvelli efnahagsmála og erfiðleika evrunnar heldur ekki síst með því hvaða breytingar þeir eru að gera innan sjávarútvegsins og innan þeirrar stefnu sem þar ríkir. Það er alla vega ljóst í mínum huga að eins og stefnan er þar núna mun hún ekki gagnast Íslendingum til lengri tíma litið þegar kemur að rekstri sjávarútvegs.

Við verðum hins vegar að líta til þess að þegar aðildarsamningur liggur fyrir fær fólkið að meta áhrif (Forseti hringir.) slíkra samninga á samfélagið í heild.