140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:39]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Já, ég tek undir það með hv. þingmanni að það er fyrir öllu að ræða þetta mál af yfirvegun og skynsemi. Á köflum hefur færst harka í umræðuna. Það er allt eins og það er og gerist oft í stjórnmálunum. Vonandi erum við að komast á þann stað í umræðunni að við getum farið að ræða okkur niður á lausn og niðurstöðu. Ég held að meginmarkmiðið liggi alveg fyrir. Prinsippið er skýrt, hið pólitíska prinsipp, gjaldtaka af nýtingu á sameiginlegri auðlind í þjóðareigu og eftir stendur að ná niðurstöðu um forsendurnar sem við getum reiknað gjaldtökuna út frá eins og við nefndum hérna áðan.

Menn eru að tala um tölur í þessu sambandi. Auðvitað er engin tala heilög í því, það getur aldrei snúist um það af því að reiknireglan er út frá stöðu greinarinnar hverju sinni. Við erum að tala um auðlindagjald á bilinu 9–11 milljarðar, eins og hv. þingmaður nefndi áðan. Framsóknarflokkurinn hefur nefnt sömu tölur. Í tillögum ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir 15 milljörðum fyrir þetta ár. Við hljótum að geta náð saman um þetta mál þegar svona lítið ber á milli og þingmaðurinn nefnir þessa tölu sem er mjög gott mál að fá fram af því að við þurfum að tala skýrt í þessari umræðu til að geta talað okkur niður á niðurstöðu.