140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:02]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni kærlega fyrir ræðuna. Hann fór hér yfir málið og mér fannst athyglisvert hvernig hann fór í þá umræðu sem hefur verið hér í morgun. Hann líkti samstöðufundinum í gær við Sölku Völku og annað en samt vakti furðu mína að þrátt fyrir að nánast allir sem hafa sent inn umsagnir um frumvarpið eru á móti því, m.a.s. ASÍ. ASÍ telur að þetta hafi neikvæð áhrif en hefur samt verið frekar hallt undir þessa ríkisstjórn. Vegna þess að þarna voru í gær hinar vinnandi stéttir í sjávarútvegi að mótmæla saknaði ég þess að ASÍ-forustan kæmi og tæki sér stöðu með sjómönnum til að sýna að um væri að ræða alvörumótmæli. Þetta snertir alveg óskaplega marga sem eru á hinum almenna vinnumarkaði.

Þetta er nokkuð sem forseti ASÍ verður að lifa við. Við vitum að hann ætlaði sér einu sinni að verða varaformaður Samfylkingarinnar. Nú er rekin öðruvísi verkalýðsbarátta en þegar það voru alvörumótmæli og þegar ASÍ og samtök innan ASÍ voru alltaf í stjórnarandstöðu. Þá vorum við að tala um alvörumótmæli.

Fundurinn fór sem betur fer mjög vel fram þarna í gær og þingmenn virðast hafa mismunandi sýn á það sem gerðist á Austurvelli. Sumir tala um að þarna hafi lítill hópur haft yfirhöndina. Ég sá það ekki en stóð samt þarna úti.

Þingmaðurinn fór yfir áhrif frumvarpsins á bankana og nú er sáttatillaga frá ríkisstjórn um að lækka gjaldið úr 18 milljörðum niður í 15 milljarða. Í umsögn Landsbankans kemur fram að verði þetta að lögum þurfi bankinn strax að afskrifa 31 milljarð (Forseti hringir.) og Landsbankinn er ríkisbanki þannig að tvö fyrstu árin færu beint í afskriftir hjá ríkisbanka. Ég spyr: Getur þingmaðurinn útskýrt hvað er í gangi hér?