140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:08]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir fór yfir, pólitísk óvissa er versti óvinur fjárfestisins. Þar sem mikið stefnuleysi ríkir í reglugerðum, lögum og stjórnvaldsaðgerðum er minni fjárfesting en annars staðar. Við sjáum það á því að pólitísk óvissa mæld af alþjóðlegum fyrirtækjum á Íslandi er á sama stigi og í Norður-Afríku, (VigH: Hneyksli.) Rússlandi, Kína og stöðum sem maður hefði haldið að væru órafjarri hinum íslenska raunveruleika. En þannig líta matsfyrirtækin á það, þau sem meta pólitíska óvissu. Og þetta er enginn skáldskapur eða álit mitt á þessum hlutum, svona er alþjóðleg tölfræði yfir pólitíska áhættu einfaldlega. Ísland lendir þar.

Hvað varðar fiskveiðistjórnarkerfi Evrópusambandsins annars vegar og Íslands hins vegar er ljóst að Evrópusambandið hefur mjög horft til íslenska fiskveiðistjórnarkerfisins. Það er að vinna að endurbótum á því kerfi og þær endurbætur byggja mjög mikið á þeirri leið sem við erum að fara. Auðvitað viljum við samt ekki fara yfir í kerfi eins það er núna innan sambandsins vegna þess að það er óhagkvæmt og það mundi rústa sjávarútvegsatvinnuvegi okkar. Kannski er það bara lóðið að menn vilja taka í burtu þá hindrun og rústa sjávarútvegskerfinu vegna þess að þá erum við eins vel sett með sjávarútvegskerfi Evrópusambandsins.