140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má nefna mörg önnur fyrirtæki sem hafa þróast eða vaxið í sjávarútvegsklasanum og átt þar góðu gengi að fagna. Má þar nefna fyrirtæki eins og Skagann og 3X-Stál. Þessi fyrirtæki eiga enn mikið undir því að íslenskur sjávarútvegur vaxi og dafni áfram. Mörg þeirra hafa náð að sækja út fyrir landsteinana, til Færeyja, Evrópu og Suður-Ameríku eins og hefur komið fram, og allt er það vegna þess að innan þeirra starfar dugmikið og hugmyndaríkt fólk sem hefur haft aðstöðu til að þróa hugmyndir sínar. Við vitum líka að útgerðarfyrirtækin á Íslandi hafa verið mjög dugleg að taka þátt í og vera í samstarfi við þessi fyrirtæki um þróunarvinnu og hefur það skilað sér á endanum til beggja aðila. Það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt. Mér finnst allt of lítið tillit tekið til slíkra þátta í þessari umræðu, sérstaklega hjá stjórnarþingmönnum.

Því hefur haldið fram, m.a. af hæstv. sjávarútvegsráðherra, að það að auka kostnað sjávarútvegsfyrirtækjanna og skekkja rekstur þeirra hafi engin áhrif á laun þeirra sem vinna hjá þeim, laun sjómanna. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann geti á einhvern hátt sagt skoðun sína á því hvort þetta geti virkilega verið rétt, hvort það sé ekki þannig með þessi fyrirtæki eins og öll önnur að þegar kostnaður eykst sé reynt að mæta honum með einhverjum hætti, með einhvers konar samdrætti, niðurskurði eða hagræðingu. Á endanum hlýtur það að koma við launin eins og hjá öllum öðrum fyrirtækjum þegar draga þarf saman, hvort sem það er þá í minnkaðri yfirvinnu eða fækkun á vinnustundum, uppsögnum eða öðru.