140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:18]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé algjör lykilspurning, þ.e. hvernig þetta kemur niður á þeim sem vinna við greinina, sjómönnunum, launþegunum. Á Íslandi búum við við hlutaskiptakerfi og þá skipta sjómenn og útgerðir á milli sín auðlindarentunni. Um leið og útgerðin er gerð óhagkvæm, þ.e. þegar auðlindarentan minnkar, lækka laun sjómannanna. Það er algjörlega óháð því að auðvitað munu útgerðirnar reyna að hagræða og annað slíkt. Ef við gerum kerfið óhagkvæmara lækka launin. Það hefur ekkert að gera með það sem er gert innan útgerðarinnar. Því erfiðari sem rekstrarskilyrðin verða síðan innan útgerðarinnar, því meiri þungi er lagður á að ná niður kostnaði til þess að fyrirtækið geti lifað af, getum við sagt.

Það er algjörlega hárrétt hjá hv. þingmanni, breytingar eins og þessar í óhagkvæmnisátt og aukinn kostnaður munu leiða til þess að laun sjómanna og landverkafólks munu lækka. Þess vegna lýsa ummæli sjávarútvegsráðherra djúpstæðri vanþekkingu á því hvernig launamyndun er í greininni sem og aðstæðum sjávarútvegs og áhrifum þessara frumvarpa.