140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:38]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg hárrétt hjá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni og ég þakka honum fyrir að vekja einmitt athygli á því hvað tækifærin okkar eru í raun fjölbreytt og á hvaða vettvangi stjórnvöld ættu að vera að beita kröftum sínum. Íslenskur sjávarútvegur hefur sýnt það að hann þarf ekki ríkisstyrki, ekki lengur, hann þurfti það á árum áður, hann þarf það ekki í dag. Það sem íslenskur sjávarútvegur biður fyrst og fremst um er að fá frið til að halda þessu góða starfi áfram. Íslenskur sjávarútvegur — og þá er ég að tala um allar stéttir sem þar starfa — er líka sammála því að við þær aðstæður sem eru uppi í dag sé eðlilegt að hann greiði hærri gjöld í ríkissjóð, um þetta eru allir sammála. Ágreiningurinn er um það hversu mikil þau eigi að vera.

Það er einmitt ástæða til að horfa á það sem hv. þingmaður var að segja um hvar við gætum létt undir annars staðar, hvað annað við gætum gert, t.d. til að efla byggðirnar um allt land. Hvað annað gætum við gert? Og þar komum við að öðru máli. Það á engin þjóð eins mikil tækifæri og Íslendingar í dag til þess en þar stendur allt fast eins og í sjávarútvegsmálunum. Þarna er ég að tala um orkufrekan iðnað. Þar höfum við einstakt tækifæri til að bæta fyrir þau mistök sem hafa verið gerð á undanförnum árum með að efla ekki atvinnutækifæri á fjölbreyttari vettvangi en raun ber vitni úti um allt land og snúa við þeirri byggðaþróun sem blasir við (Forseti hringir.) og efla þær byggðir um allt land sem standa höllum fæti. Þetta er grundvallaratriði og þarna ættum við að sameinast um að finna út af skynsemi hvað íslenskur sjávarútvegur getur greitt, (Forseti hringir.) er aflögufær um að láta renna til þjóðarbúsins. Við þurfum að hvetja til þess að fjárfestingarnar fari af stað í sjávarútvegi, sem er gríðarlega mikilvægt fyrir atvinnulífið í landinu, og horfa til þess hvaða skref (Forseti hringir.) við getum stigið í orkufrekum iðnaði sem mundu efla atvinnustarfsemi á miklu fjölbreyttari grunni en nú er.