140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[13:47]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég held að það sé einmitt mjög mikilvægt að við finnum til þeirrar ábyrgðar sem við eigum að bera hér á Alþingi á því hvernig við högum málflutningi okkar og hvernig við förum með sannleikann í málum. Við getum haft misjafnar skoðanir á þeim en þegar farið er að halla réttu máli viljandi og reka rýting í bakið á andstæðingum þá erum við komin út á ansi hálan ís.

Nú veit ég að hv. þingmaður er í góðum tengslum við kjördæmi sitt. Hann er bóndi og þekkir vel til á sínu svæði. Fjölmargar umsagnir hafa borist frá mörgum verkalýðsfélögum og sveitarfélögum á hans svæðum. Dregur hann eitthvað í efa að þær áhyggjur séu raunverulegar? Metur hann það ekki þannig að menn séu þarna fyrst og fremst að gæta hagsmuna íbúa þessara svæða, (Forseti hringir.) að reyna að koma á einhverju öryggi sem hjá nefndinni hefur komið fram að sé kannski helsti óvinur landsbyggðarinnar?