140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[13:52]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Hv. þingmaður kemur inn á að í frumvarpinu um stjórn fiskveiða sé áætlað að veita þá fjármuni beint til landsbyggðarinnar, en það er einungis lítill hluti, það er einungis lítið brot af því sem ætlunin er að innheimta með veiðigjaldi. Stærstur hluti sem ætlunin er að innheimta er með því frumvarpi sem við erum að ræða nú, veiðigjaldafrumvarpinu. Það er á engan hátt bein tenging við að þeir fjármunir renni sjálfkrafa til landsbyggðarinnar. Ef hv. þingmaður er að vitna til fjárfestingaráætlunar ríkisstjórnarinnar, sem hún er búin að leggja fram án þess að fá þetta mál í gegnum þingið, þá getum við á engan hátt talað um að þar sé með beinum hætti verið að tryggja að þeir fjármunir veiðigjalda renni til landsbyggðarinnar. Það er einfaldlega gullvagn ríkisstjórnarinnar sem hún ætlar að fara með um landið og dreifa fjármunum úr. Það er á engan hátt verið að tryggja það að þeir fjármunir renni til lengri tíma litið til landsbyggðarinnar. Það var það sem ég vitnaði til í ræðu minni áðan þegar ég vísaði til frumvarpa sem flokksfélagi hv. þm. Björns Vals Gíslasonar, hv. þm. Jón Bjarnason, lagði til þegar hann gegndi embætti hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að fjármunir af veiðigjaldinu rynnu að hluta beint til landsbyggðarinnar. Sá þingmaður ásamt hv. þm. Atla Gíslasyni hefur reyndar flutt breytingartillögu þar sem segir, með leyfi forseta:

„Tekjum af veiðigjöldum skal ráðstafað þannig:

1. 50% tekna af veiðigjöldum hvers fiskveiðiárs skulu renna í ríkissjóð.

2. 40% tekna af veiðigjöldum hvers fiskveiðiárs skulu renna til þess sveitarfélags eða landshlutasamtaka þar sem skip er skráð.

3. 10% tekna af veiðigjöldum skulu renna í rannsóknarsjóð til að auka verðmæti sjávarfangs, AVS-sjóð, með það að markmiði að stuðla að rannsóknum, nýsköpun og þróun ásamt markaðsmálum í íslenskum sjávarútvegi.“

Þarna erum við að tala um að beintengja þessa fjármuni við landsbyggðina. Það er ekki gert með beinum hætti í dag þó að ríkisstjórnin sé búin að gefa það út að hún ætli síðan að nota þetta í fjárfestingaráætlun sína. Það er á engan hátt trygging til framtíðar fyrir því að þessir fjármunir verði notaðir í að styrkja landsbyggðina og af reynslu undanfarinna ára, eins og ég og hv. þingmaður þekkjum, er erfitt fyrir landsbyggðina að þurfa alltaf að koma betlandi um fjármuni úr ríkissjóði við að halda einum eða tveimur opinberum störfum úti á landi. (Forseti hringir.) Það höfum við séð bæði í tíð núverandi ríkisstjórnar og í tíð fyrri ríkisstjórna.