140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[13:56]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Það kom fram í máli mínu að það væri hárrétt hjá hv. þingmanni að það sem ætlunin er að innheimta, samkvæmt því frumvarpi sem við erum ekki að ræða, er beintengt landsbyggðinni. En ég sagði að það væri einungis lítill hluti.

Það sem verið er að tala um í þessu frumvarpi hérna, veiðigjaldafrumvarpinu, er miklu stærri upphæð og þeir fjármunir eru á engan hátt beintengdir landsbyggðinni eða öruggt að þeir renni þangað. Það snýst allt um pólitískan vilja hverju sinni hvort þeir renna úr ríkissjóði til landsbyggðarinnar.

Draga menn í efa það sem sveitarstjórnarmenn hringinn í kringum landið segja? Sveitarfélagið Skagafjörður, Grindavík, Fjallabyggð, Snæfellsbær, Skagaströnd, Bolungarvík, Húnavatnshreppur, Húnaþing vestra, Grýtubakkahreppur, Langanesbyggð, Ísafjarðarbær, Rangárþing eystra, Fjarðabyggð, Seyðisfjörður, Skagabyggð, Stykkishólmur, Norðurþing, sveitarfélagið Ölfus, Tálknafjarðarhreppur, Vesturbyggð, Grundarfjarðarbær, Akraneskaupstaður, Árborg, Akrahreppur, Borgarbyggð, Hornafjörður, Dalvíkurbyggð, Fljótsdalshérað, Blönduósbær, Vopnafjarðarhreppur, Reykjanesbær, Garður, Akureyrarbær og Vestmannaeyjar. (Forseti hringir.) Þetta eru þau sveitarfélög sem hafa verið að gagnrýna það að ríkisstjórnin ætli að taka þessa fjármuni beint í ríkissjóð án þess að veita til landsbyggðarinnar aftur. Þá hlær hv. þingmaður, sami (Forseti hringir.) þingmaður og lagði til að heilbrigðiskerfinu á landsbyggðinni (Forseti hringir.) yrði rústað. (Gripið fram í.)