140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:02]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni svarið. Það liggur fyrir að ekkert hefur verið unnið í þessu máli, því miður. Ég hefði talið að það hefði orðið til stórs gagns í þeirri umræðu sem menn hafa staðið í undanfarna daga ef áhrif fjárlagagerðarinnar á þennan þátt íslensks þjóðlífs hefðu legið fyrir. En það vakti eftirtekt að þegar þessar tillögur voru kynntar var blásið til nýrrar sóknar á sviði byggðamála og kynnt fjárfestingaráætlun Íslands frá 2013–2015, á næsta kjörtímabili. Ég minnist þess ekki að hafa séð í þeim áformum nokkurn skapaðan hlut um að styrkja þá grunninnviði sem lúta að beinni opinberri þjónustu og þætti vænt um það ef hv. þingmaður gæti leiðrétt mig í þeim efnum. Ekki bólar á neinum tillögum í þeim efnum annars staðar nema síður sé. Þar er boðaður frekari niðurskurður í fjárlagagerðinni, sérstaklega á sviði heilbrigðisþjónustu, eftir því sem maður kemst næst af lestri fjölmiðla í þessari viku, því miður.