140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:15]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir málefnalega ræðu. Mig langar að spyrja hann út í það sem er kjarni málsins í mínum huga varðandi þetta frumvarp, þ.e. hvað sé sanngjörn og eðlileg skipting auðlindaarðs milli annars vegar greinarinnar, útgerðarinnar og þeirra sem eiga þar hagsmuna að gæta, og hins vegar eigandans sem er þjóðin.

Í lögbók okkar hefur það verið staðfest í tæp 25 ár, í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða, að þjóðin eigi sameiginlega nytjastofnana á Íslandsmiðum og rétt eins og atvinnurekendur í landi gera eðlilega kröfu til þess að fá arð af eigum sínum er eðlilegt að þjóðin geri þá kröfu þegar um er að ræða sameign hennar að fá a.m.k. sanngjarnan hlut í arðinum af auðlindinni.

Við sjáum í gögnum frá síðasta áratug að þar eru mjög merkilegar niðurstöður þegar við skoðum hvað þjóðin fékk í sinn hlut af veiðigjaldi útgerðarinnar. Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn frá flokksfélaga hv. þingmanns, Einari K. Guðfinnssyni, sem var sjávarútvegsráðherra hér í eina tíð. Þar kemur fram að veiðigjaldið hefur skilað þjóðinni frá 1,5%, árið 2006, og niður í 0,17% af framlegð útgerðarinnar, árið 2009. Telur hv. þingmaður að þessi hlutdeild þjóðarinnar, 0,17% og upp í 1,5%, af framlegð útgerðarinnar sé sanngjörn hlutdeild í auðlindaarðinum?