140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir ræðu hans hér áðan, sem að mörgu leyti var ágæt og efnisleg um málið sjálft. Það hafa því miður verið haldnar allt of margar ræður sem fjalla ekki efnislega um það frumvarp sem hér er til umræðu.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann út í það sem hann kallar þjóðnýtingu í frumvarpinu, að það sé ígildi þess að verið sé að þjóðnýta og ríkisvæða hluta þessarar greinar. Getur hann útskýrt það betur fyrir mér og fært betri rök fyrir því?

Í öðru lagi er ég sammála hv. þingmanni um að það er ríkisins, Alþingis, okkar allra, að skapa öðrum tækifæri til að starfa í sjávarútvegi og öðrum greinum, algjörlega sammála hv. þingmanni um það, enda tel ég að með því frumvarpi sem hér um ræðir sé ekki verið að ganga gegn því markmiði. Það er ekkert í frumvarpinu að mínu mati sem hægt er að draga þá ályktun af að verið sé að þjóðnýta eða ríkisvæða greinina, eins og hv. þingmaður nefndi áðan eða mér fannst hann gefa í skyn.

Ég er hins vegar ósammála honum um að réttlátur hlutur af arði auðlindarinnar sé einfaldlega fallegur frasi sem sé seljanlegur. Þetta eru pólitískar átakalínur, eins og hv. þingmaður nefndi, sem við eigum kannski að takast á um frekar en margt annað.

Mig langar að spyrja, og fara aðeins nær því sem hv. þm. Skúli Helgason fjallaði um, hvort þingmaðurinn telur að við séum komin að endimörkum þess auðlindagjalds sem við getum tekið fyrir sjávarútveginn eða hvort hann sé þeirrar skoðunar að það sé hægt að auka það frá því sem nú er. Þarf að minnka það? Þarf að gera einhverjar breytingar, hugsanlega kerfisbreytingar, eða er hægt að gera þetta með öðrum hætti, t.d. afkomutengdara en gert er í dag? Eða (Forseti hringir.) telur hv. þingmaður að við eigum að halda okkur við það kerfi sem við búum við í dag varðandi auðlindagjald?