140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:26]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Fyrst af öllu vil ég gefa þá yfirlýsingu að hv. þm. Björn Valur Gíslason, samþingmaður minn úr Norðausturkjördæmi, kom illa fram við hv. þm. Jón Gunnarsson hér í fyrrakvöld og umræða sú sem ég stend í tekur að nokkru mið af því. Mér finnst sá ágreiningur ekki hafa verið jafnaður nægilega vel og tel að hv. þm. Jón Gunnarsson sitji uppi með ákveðna ásökun sem þinginu og forseta ber að hafa forgöngu um að létta af honum. Þetta vildi ég segja í upphafi máls míns.

(Forseti (ÁI): Það er spurning hvort hv. þingmaður vildi ræða um fundarstjórn forseta eða svara.)

Ég er að svara andsvari, forseti. Varðandi það sem hv. þingmaður spurði síðan sérstaklega um segi ég það alveg hreint út að ég er í grundvallaratriðum á móti sérstakri skattlagningu á þessa tilteknu atvinnugrein umfram aðrar atvinnugreinar. Ég er í grundvallaratriðum ósammála þeim áherslum sem hafa sérstaklega komið frá öðrum stjórnarflokknum sem rökstuðningur fyrir álagningu þessa gjalds, að menn græði of mikla peninga í atvinnugreininni. Ég sé engan mun á sjávarútvegi eða öðrum atvinnugreinum í þeim efnum.

Það kann vel að vera að sjávarútvegurinn þoli hærri skattlagningu nú um stundir en raun ber vitni en þá er það grundvallaratriði í mínum huga að sú skattlagning sem menn vilja leggja á þessa tilteknu grein gangi líka yfir aðrar atvinnugreinar sem ganga á íslenskar auðlindir. Þetta er mín grundvallarafstaða.