140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég áttaði mig ekki alveg á inngangi andsvars hv. þingmanns. Reyndar gerðist það hér í gær að þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfnuðu því að eiga samræður við mig úr ræðustól utan einn þingmaður. Þetta er þá annar þingmaðurinn í röð sem brýtur væntanlega það samkomulag sem þingmennirnir virðast hafa gert. En hvað um það, ég ætla ekki að skipta mér af því og þakka þá þingmanninum fyrir að taka þá þátt í þessum samræðum við mig hérna. Ég held að það hljóti allir að hafa gott af því hvað sem menn kunna að deila um annað.

Ég er sammála hv. þingmanni enn og aftur um að jafnt eigi yfir alla að ganga varðandi nýtingu á sameiginlegum auðlindum okkar allra, þ.e. varðandi hvaða gjald á að taka fyrir nýtingu af þeim og hvernig á að gera það. Ég held að það sé hugmyndafræðin sem stendur að baki frumvarpinu í dag, þ.e. annars vegar um fast veiðigjald sem á að standa undir ákveðnum kostnaði við þjónustu og rekstur greinarinnar af hálfu hins opinbera og hins vegar sérstakt gjald sem tekur mið af arðseminni þegar greiddur hefur verið rekstur og endurnýjun og tekið tillit til afskrifta og ávöxtunar á eigið fé fyrirtækjanna sem reka þessa sameiginlegu auðlind. Þá erum við komin að því að fara að skipta afrakstrinum á milli okkar. Þetta er ekkert ný aðferð sem hér er verið að leggja til, hún er þekkt um allan heim. Þetta er aðferð sem hefur margoft verið lögð til í þessari umræðu á undanförnum árum og áratugum, eins og ég benti á í inngangsræðu minni við upphaf þessarar umræðu fyrir viku síðan eða svo.

Skil ég hv. þingmann rétt, að hann sé andvígur þessari hugmyndafræði að því gefnu að sams konar gjald verði tekið af öðrum opinberum auðlindum, eins og lagt er til hér? Er hann andvígur því í prinsippinu að gjald með þessari aðferð og þessi aðferðafræði verði notuð varðandi nýtingu annarra auðlinda?