140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:32]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér veiðigjaldið og mig langar að ræða það í samhengi við frumvarp um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Veiðigjaldsfrumvarpið hefur verið til umræðu um nokkra hríð og hefur verið bent á fjölmarga galla á því. Það byrjaði með því að menn lögðu á allt of hátt gjald, það var meðal annars á grundvelli mistaka sem gerð voru við útreikningsgrunninn á gjaldinu.

Nú segja menn að til standi að lækka gjaldið frá því sem upphaflega stóð til, menn tala hér um 15 milljarða eða þar um bil. Það er að vísu meiningarmunur á því hvort um er að ræða 15 milljarða eða hvort þetta er nær 16 milljörðum eins og útgerðarmenn vilja halda fram. En ljóst er að það er mjög blekkjandi að halda því fram að hér sé einungis verið að leggja til 15 milljarða vegna þess að á nokkrum árum er gert ráð fyrir að gjaldið fari upp í allt að 21 milljarð, að ég tel.

Ég sagði í ræðu fyrr í dag að fyrirtæki væru ekki rekin eins og um 12 spora kerfið væri að ræða, þar sem hverjum degi væri látin nægja sín þjáning. Alvöruatvinnurekstur þarf að standa föstum fótum og byggjast á skipulagningu mörg ár fram í tímann og líka á því að fyrirséð sé hvernig hlutirnir verða að eins miklu leyti og hægt er.

Sjávarútvegur býr við þá sérstöðu að þar er mikil óvissa vegna þess að hann byggist á fiskiauðlind sem sveiflast milli ára. Hvergi er á vísan að róa í því sambandi, aflabrestur getur orðið eins og við þekkjum. Við sjáum til dæmis að á þessu ári er loðnuvertíð með allra besta móti og gríðarlega miklar tekjur og afkoma er vegna þess. En ekki er langt síðan engin loðna var veidd. Það skiptast á skin og skúrir í þessu efni.

Hér er alls ekki verið að leggja til 15 milljarða veiðigjald eins og margir vilja vera láta heldur er það nær 21 milljarði með aðlögun sem tekur fjögur eða fimm ár. Mig langar að vekja athygli á því að stofninn sem þessi skattlagning byggist á hvílir á því kerfi sem notað er við fiskveiðistjórnina, þ.e. kvótakerfinu. Frá því að kvótakerfið var innleitt rétt fyrir miðjan níunda áratuginn hefur það leitt til mikillar hagræðingar í greininni, sérstaklega eftir að framsal var leyft árið 1990. Það hefur leitt til þess að fiskiskipum hefur fækkað, sjómönnum hefur fækkað, hagnaður hefur aukist og þegar góð ár koma eins og við erum að upplifa núna er afkoman í greininni gríðarlega góð. Sú góða afkoma bætir upp fyrir lakari tíma, til dæmis loðnubrest eins og varð hér fyrir ekki löngu síðan.

Í fiskveiðistjórnarfrumvarpinu er þessi grunnur að skattlagningu rýrður með því að verið er að innleiða óhagkvæmni í greinina. Nokkurt skref var stigið þegar strandveiðar voru leyfðar og voru það mikil vonbrigði að þar skyldu ólympískar veiðar innleiddar í hluta íslenskra fiskveiða, enda hefur það sýnt sig að þeir bátar sem gerðir eru út á strandveiðar eru reknir með tapi og standa engan veginn undir þeim fjárfestingarkostnaði og launum sem eðlilegt er að gera kröfu um í atvinnustarfsemi sem þessari.

Breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu sem lagðar eru til í frumvarpinu, eins og takmarkanir á framsali, að sólarlag sé á framsali eftir 20 ár, að eftir það verði framsal ekki leyft og ýmis ákvæði sem auka vald ráðherra, leiða til óvissu um hvernig farið er með kerfið. Allt þetta leiðir til þess að auðlindarentan minnkar. Auðlindarentan skapast af því að nú um stundir búa útgerðir við einkaleyfi á því að nýta auðlindina, við köllum það kvótakerfi í daglegu tali. Það var innleitt til að losna við það sem kallað er sorgarsaga almenninganna í fiskihagfræðinni. Allir þessir hlutir leiða til þess að auðlindaarðurinn skerðist á altari óhagkvæmni vegna offjárfestingar.

Of mikið fjármagn er notað til að sækja fiskinn og of margir sjómenn stunda fiskveiðar. Það mun einungis leiða til þess að auðlindarentan minnkar. Þar af leiðandi minnkar skattstofninn fyrir þann skatt sem auka á margfalt jafnframt því sem laun sjómanna lækka. Þau lækka beint, ekki vegna aðgerða útgerðanna heldur vegna stjórnvaldsaðgerða þegar fleiri sjómenn sækja í takmarkaða auðlind vegna þess að ljóst er að þessar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu munu ekki leiða til þess að meiri afli komi að landi. Hægt er að færa góð rök fyrir því að með því að innleiða ólympískar veiðar eins og gert er í strandveiðunum og óhagkvæmari veiðar sem byggjast ekki á jafnmiklum langtímasjónarmiðum og nú er, versni meðferð afla og tekjur útgerða lækka þar af leiðandi, sem lækkar enn laun sjómanna.

Hitt er annað mál að ef útgerðirnar búa við vissu í framtíðinni og hafa yfir þeim einkaleyfum að ráða sem nýtingarleyfin eru, ef nýtingarsamningar verða gerðir um það, er óhjákvæmilegt að fallast á þau sjónarmið að hægt sé að krefja útgerðina um veiðileyfagjald. En þá er það spurning hve hátt það gjald eigi að vera. Ég held að gjaldið eigi að endurspegla margvíslega hagsmuni; hagsmuni útgerðarinnar, hagsmuni þeirra byggða þaðan sem aflinn er sóttur, hagsmuni sjómanna, hagsmuni landverkafólksins og hagsmuni þeirra sem eiga auðlindina.

Þarna verður að vera samspil. Ekki er hægt að draga fram einhvern einn þátt og halda því fram að útvegurinn muni ráða við þetta, það er ljóst að þessi tvö frumvörp munu leiða til sólarlags þess kerfis sem við búum við.