140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir ræðu hans sem var ágæt þó að hún hafi að stórum hluta fjallað um annað mál en við fjöllum um hér. En það er sama, hann lagði skoðanir sínar á málinu fram á málefnalegan hátt þegar hann á annað borð tjáði sig um það, og sérstaklega þá undir lok ræðunnar þar sem hv. þingmaður talaði annars vegar um nýtingarleyfin, sem muni leiða til þess að réttlætanlegt verði að taka frekara gjald en áður. Ef ég hef skilið hv. þingmann rétt var sú hugmyndafræði ekki fjarri huga hans og skoðunum.

Þetta er meginmálið. Þegar okkur tekst að ræða efnislega um frumvörp sem sett eru fram, lið fyrir lið, grein fyrir grein, og átta okkur á því um hvað þau fjalla, hver markmiðin eru, finnst mér oft og tíðum að ekki sé svo langt á milli aðila, hinna pólitísku flokka og einstaklinga hér inni, þó að okkur kunni að greina á um stærðir og útfærslur. Meginlínurnar eru nokkuð skýrar varðandi nýtingarleyfin og gjaldtökuna. Rétt eins og hv. þingmaður sagði áðan er það þá bara spurning um upphæðina, hvað er sanngjarnt og hvað ber að greiða.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Hvað telur hv. þingmaður eðlilegt, sanngjarnt eða mögulegt að greinin greiði í dag í veiðigjald sem hlutfall af afkomu, sem fast gjald? Ég er ekki endilega að tala um krónur og aura í afkomutengda gjaldinu eða sérstaka gjaldinu, fasta gjaldið er nánast það sama og er í dag, ég held við hljótum að vera nokkuð sammála um það. En varðandi sérstaka gjaldið, hvað telur hv. þingmaður eðlilegt að eigandinn fái þá til sín hlutfallslega af afkomunni og tengdri arðsemi greinarinnar?