140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það eru nokkur atriði sem ég ætla að drepa á í þeirri umræðu sem við erum stödd í í dag. Í fyrsta lagi vil ég geta þess að í þessu máli snýst ágreiningurinn auðvitað um mikla hagsmuni. Það er hins vegar rangt sem oft er reynt að halda fram að hér sé eingöngu um að ræða einkahagsmuni útgerðarmanna, einkahagsmuni tiltölulega fámenns hóps í landinu. Það er ekki rétt. Það sem málið snýst um er að sú atvinnugrein sem við erum að fjalla um í þessu frumvarpi og einnig frumvarpinu sem væntanlegt er að því er manni skilst úr atvinnuveganefnd um stjórn fiskveiða, er einhver mikilvægasta atvinnugrein landsins. Afkoman þar, hagkvæmni þar og sá árangur sem næst í þeirri grein skiptir gríðarlega miklu máli fyrir þjóðarhag.

Ég verð að segja að í þessari umræðu finnst mér margir sem lýst hafa stuðningi við þau frumvörp sem um er að ræða horfa fram hjá því að við nákvæmlega þann þátt, hinn þjóðhagslega þátt, hafa verið gerðar mjög miklar athugasemdir. Það hefur komið fram af hálfu sérfróðra aðila, hagfræðinga, ýmissa hagsmunaaðila, sérfræðinga úr háskólasamfélaginu og víðar að með þeim breytingum sem hæstv. ríkisstjórn leggur upp með í þessum frumvörpum er verið að skaða arðsemi og skaða hagkvæmni í atvinnugreininni. Það er áhyggjuefni.

Ég sagði í umræðum í síðustu viku að þó að þessi frumvörp næðu fram að ganga verður auðvitað áfram gert út hér á landi. Það verður veiddur fiskur. Það verður unninn fiskur og fluttur út fiskur. Það efast enginn um það. En eins og margsinnis hefur komið fram þá er hægt að gera það með hagkvæmum hætti en líka óhagkvæmum hætti. Munurinn á því hvort það er gert af hagkvæmni eða óhagkvæmni skiptir töluvert miklu máli fyrir þjóðarhag, fyrir hagsmuni einstakra byggðarlaga og að sjálfsögðu fyrir hagsmuni fyrirtækja.

Áhyggjurnar sem ég hef og margir og allflestir umsagnaraðilar hafa af áhrifum þessara frumvarpa eru einmitt þær að þau leiði til áfalls fyrir atvinnugreinina með þeim afleiðingum að hagur allra versni, ekki bara útgerðarmanna, ekki bara skipstjórnarmanna eða sjómanna, ekki bara þeirra sem starfa í tengslum við sjávarútveg heldur allra landsmanna því það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir Íslendinga alla hvernig afkoman er í sjávarútvegi, að það sem gert er í sjávarútvegi sé hagkvæmt og skynsamlegt, að kerfið sem við byggjum á í sjávarútvegi sé þess eðlis að hann skili sem mestri arðsemi. Þar liggja áhyggjurnar. Ég verð að segja, og tel ég mig hafa fylgst allvel með þessum umræðum, að þetta eru röksemdir sem ég tel að hafi ekki verið svarað.

Ég lýsti í umræðum fyrir fáeinum dögum eftir því að mér yrðu sýnd dæmi um það að hagfræðingar eða aðrir sérfræðingar á sviði efnahagsmála hefðu tekið þessi frumvörp og sagt: Þetta er góð hugmynd, þetta er góð lausn, þetta er góð útfærsla. Ég hef ekki heyrt af því enn þá. Ég veit að til eru ýmsir hagfræðingar sem eru andvígir núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Þeir hafa tjáð sig oft og iðulega opinberlega, fyrir þingnefndum og í ræðu og riti, en þeir sem vilja þessi frumvörp samþykkt hafa ekki getað dregið fram hagfræðinga sem hafa sagt: Þetta er hagfræðilega góð lausn. Þetta eru hagfræðilega sniðugar aðferðir, þetta er vel gert hagfræðilega. Ég kannast ekki við að slík sjónarmið hafi komið fram af hálfu hagfræðinga. Ég játa að það kann að hafa farið fram hjá mér, að hér hafi komið hagfræðingar og sagt: Hér er valin góð þjóðhagsleg og efnahagsleg lausn fyrir Ísland. Hér er valin útfærsla á breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu sem er hagfræðilega góð. Munið þið eftir einhverjum sem hefur haldið því fram?

Eins og ég sagði fyrr í ræðu minni eru ýmsir hagfræðingar gagnrýnir á núverandi kerfi. Núverandi kerfi er mjög umdeilt meðal hagfræðinga en eru frumvörpin umdeild meðan hagfræðinga? Það vantar að minnsta kosti stuðningsmennina hygg ég og sjáist mér yfir einhver augljós skrif um þau efni bið ég menn að benda mér á þau.

Annað sem skiptir máli í þessu sambandi er líka hin lögfræðilega hlið sem ég drap nokkuð á í ræðu minni um daginn. Í umsögnum við þetta frumvarp koma fram mjög alvarlegar athugasemdir frá hendi virtra og viðurkenndra lögfræðinga sem lagt hafa mikla vinnu í þær, miðað við þann tíma sem hefur verið til stefnu til að koma á framfæri lögfræðilegum athugasemdum við ákveðna þætti í frumvörpunum, m.a. því frumvarpi um veiðigjöld sem við ræðum í dag. Það hafa komið fram alvarlegar athugasemdir við þá aðferð við skattheimtu og útfærslu skattareglna sem er að finna í þessu frumvarpi. Ég minni á að lögfræðilega eru menn ekki í neinum vafa um að það sem hér er um að ræða, þótt það sé kallað veiðigjald, er skattur í skilningi laga, skattur í stjórnskipulegum skilningi. Þetta er ekkert annað. Þetta er skattur, hvað sem menn kalla hann.

En það hafa komið fram alvarlegar athugasemdir og ég og fleiri höfum vitnað til álitsgerðar lögmannsstofunnar Lex, við höfum vitnað til lögmannsstofunnar Mörkinni, lögmanna Bonafide og fleiri lögmanna, Helga Áss Grétarssonar sérfræðings við Lagastofnun Háskóla Íslands og fleiri sem hafa tjáð sig um þetta atriði sérstaklega. Hverjar eru áhyggjur þeirra? Áhyggjur þeirra eru þær að útfærsla skattareglnanna í þessu frumvarpi stangist á við stjórnarskrá, skapi a.m.k. hættu á því að verið sé að fara á svig við ákvæði stjórnarskrár með þeirri aðferð sem hér er valin.

Ég gat þess um daginn að ég teldi afar létt skautað yfir þessar áhyggjur í nefndaráliti hv. meiri hluta atvinnuveganefndar og ég ráðlagði þá og ráðlegg þeim enn sem standa að þeim meiri hluta að láta fara fram miklu betri úttekt og athugun á þessum þætti þannig að menn nái hugsanlega að draga að minnsta kosti úr líkunum á því að lenda í málaferlum út af þessum þáttum, dragi úr líkunum á því að ríkið verði dæmt bótaskylt í þessum efnum vegna þess að þarna er verið að tala um grundvallaratriði sem gilda um skattlagningu, að skattareglur séu skýrar, um að skattlagningarvald sé ekki framselt frá þinginu til stjórnvalda jafnvel þó að stjórnvaldið heiti veiðileyfagjaldsnefnd.

Ég tel, hæstv. forseti, að hv. atvinnuveganefnd verði að fara vandlega yfir þennan þátt. Jafnvel þótt hún ætli að halda sig við frumvörp sem fela í sér þjóðhagslega óhagkvæmni er ekki gott ef hún heldur sig við frumvörp sem fela í sér brot á stjórnarskrá. Ég mundi ráðleggja viðkomandi hv. þingmönnum í mestu vinsemd að láta skoða þennan þátt sérstaklega fyrir sig og leiða fram þau lögfræðilegu rök sem vega á móti álitsgerðum þessara ágætu lögfræðinga. Það dugar ekki að segja: Þetta eru lögfræðingar sem vinna fyrir útgerðarfyrirtæki, þetta eru lögfræðingar sem vinna fyrir LÍÚ. Það svarar ekki hinum lögfræðilegu röksemdum sem er að finna í textum þeirra. Til að svara þeim þurfa menn að koma með lögfræðilegar röksemdir á móti því eins og við þekkjum þá vinnst rökræða ekki með því að fara í manninn heldur í boltann. Menn verða að svara röksemdum með röksemdum. Ef menn ætla að slá á röksemdir eingöngu vegna þess frá hverjum þær eru komnar eru menn að reyna að komast afskaplega ódýrt frá röksemdafærslunni.

Tökum sem dæmi: Í dómsmáli er það svo að báðir aðilar hafa á sínum snærum lögfræðing, lögmann. Lögmaðurinn fær greitt fyrir sína vinnu. Vinnan felst í því að koma á framfæri lögfræðilegum athugasemdum sem dómarinn á að hafa til hliðsjónar þegar hann kemst að niðurstöðu. Auðvitað er staða okkar í þinginu ekki sambærileg. En það að einhverjir lögmenn vinni fyrir tiltekna hagsmunaaðila, umsagnaraðila, gerir ekki að verkum að lögfræðilegar röksemdir þeirra skipti ekki máli. Menn geta ekki komist svo ódýrt frá málum. Satt að segja verð ég að rifja upp af þessu tilefni að það er ekki hægt að halda því fram eins og gert hefur verið ítrekað hér í umræðunni að það sé eiginlega ekkert að marka alla þá aðila sem hafa komið fram með málefnalega gagnrýni á þessi frumvörp, á þeirri forsendu að þeir séu allir undir hælnum á útgerðarmönnum í landinu. Menn komast ekki svo létt fram hjá röksemdafærslum. Menn komast ekki svo létt fram hjá því þegar athugasemdirnar koma frá ekki bara útgerðunum, ekki bara fyrirtækjum og samtökum fyrirtækja sem tengjast útgerðinni heldur frá svo til öllum þeim aðilum sem gefið hafa umsagnir um þessi frumvörp og eru þeir ekki fáir. Það skiptir engu máli hvort um er að ræða sveitarstjórnir, landshlutasamtök, sérfróða aðila, prófessora í háskólanum eða einhverja slíka. Það er ekki hægt að afgreiða alla þá gagnrýni sem fram hefur komið á þessi frumvörp á þeim grundvelli að gagnrýnendur séu allir einhvers konar leiguþý LÍÚ, eins og það var einhvern tíma orðað. Menn verða að svara þessu. Ef menn efast um hin lögfræðilegu rök sem færð hafa verið fram gegn þessum frumvörpum bið ég menn um að koma með lögfræðileg rök á móti, sama með hin hagfræðilegu rök. Ef menn hafa þau eru þeir vinsamlegast beðnir um að koma með þau á móti en ekki reyna að afgreiða gagnrýnina á þeirri forsendu að það séu bara leiguliðar, málaliðar á vegum Landssambands íslenskra útvegsmanna þar að verki.

Í lagasetningarferli þurfa menn að vanda sig. Við munum að á síðasta vori voru lögð fram frumvörp til breytinga á skipan sjávarútvegsmála í landinu og stjórn fiskveiða. Annað frumvarpið var kallað litla frumvarpið og hitt var kallað stóra frumvarpið. Litla frumvarpið náði fram að ganga en stóra frumvarpið stoppaði í þinginu eins og menn muna. Telja margir í þessum sal að við hefðum betur klárað stóra frumvarpið í fyrra? Eru margir þeirrar skoðunar að sú lausn, sú útfærsla sem þar var lögð fram hafi verið góð? Það vantaði ekki á fyrstu dögum þeirrar umræðu að hingað kæmu í ræðustól þingmenn sem héldu því fram að þetta væri fín lausn og bæri að samþykkja frumvörpin sem allra fyrst, það vantaði ekki. Það vantaði ekki að það væru færðar fram röksemdir fyrir því að þetta væri óhjákvæmileg, nauðsynleg og góð breyting á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi, frumvörpin sem hv. þm. Jón Bjarnason, fyrrverandi hæstv. ráðherra, flutti í fyrra. Þar var um að ræða frumvörp sem höfðu fengið, eins og fram kom, mikla yfirlegu í þáverandi ríkisstjórn af þingflokkum stjórnarflokkanna, voru samþykkt í ríkisstjórn og samþykkt af stjórnarflokkunum í þeirri ríkisstjórn. Það vantaði ekki. En voru hv. þingmenn síðan ekki tiltölulega fljótir að átta sig á því að frumvörpin voru meingölluð? Stóra frumvarpið sem stoppaði í fyrra var þess eðlis að þingmenn úr stjórnarliðinu treystu sér ekki einu sinni til að styðja það. Var það ekki svo? Er það misskilningur hjá mér? Voru það mistök okkar á þingi að samþykkja ekki frumvarpið hans Jóns Bjarnasonar í fyrra? Hefur það frumvarp fengið góða dóma hjá til dæmis félögum hv. þingmanns í stjórnarflokkunum, sérstaklega eftir að honum var ýtt úr embætti? Hafa hæstv. forsætisráðherra, hæstv. utanríkisráðherra eða aðrir hv. talsmenn ríkisstjórnarflokkanna talað þannig að Jón Bjarnason hafi með sjávarútvegsfrumvarpi sínu skilað góðu verki?

Þá spyr ég: Borgar sig ekki stundum að staldra við og reyna að gera betur? Kann ekki að vera að á þeim frumvörpum sem við erum með til umfjöllunar í þinginu núna séu þannig gallar að það borgi sig að staldra við? Það borgi sig að nema staðar, skoða einhverja þætti betur, taka mark á athugasemdum frá sveitarstjórnarfólki vítt og breitt um landið, háskólafólki, taka við athugasemdum m.a. frá þeim sérfræðingum sem meiri hluti atvinnuveganefndar fékk til að skoða þessi mál sérstaklega fyrir sig. Á ekkert að gera með þær athugasemdir? Á ekkert að hlusta á Daða Má Kristófersson hagfræðing eða aðra sem hafa verið atvinnuveganefnd til ráðgjafar í þessum efnum? Stendur það ekki til? Á bara að keyra þessi frumvörp áfram? Á ekki að hlusta á neinn? Er það virkilega þannig, hæstv. forseti, að menn telja að það sé góð reynsla af því? Ég held einmitt að reynslan frá því í fyrravor ætti að vera mönnum umhugsunarefni. Ég held að hv. þingmenn ættu að hugsa eitt ár til baka og velta fyrir sér hvort þeir hefðu verið virkilega sáttir við að keyra í gegn þær breytingar sem þeir ætluðu að keyra í gegn síðasta vor, vorið 2011, keyra í gegn frumvarpið sem lýst hefur verið með mjög dramatískum hætti af einstökum hæstv. ráðherrum og ætla ég ekki að taka mér þeirra orð í munn hér um að um væri að ræða þannig vinnu að ekki væri forsvaranlegt að standa þannig að löggjöf. Eru menn vissir um að þeir séu ekki á sömu slóðum núna? Ég bið hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna að hugleiða þetta. Ég bið þá að hugleiða hvort það kunni eitthvað að vera að marka þær athugasemdir sem komið hafa fram af hálfu tuga umsagnaraðila sem koma úr öllum áttum, alls staðar að af landinu. Gæti verið eitthvað að marka þær? Eru menn alveg vissir í sinni sök? Telja menn virkilega að þeir séu á réttri leið? Ég hef alveg skilning á því, þótt ég sé kannski ekki endilega sammála öllum sem þannig tala, að menn vilji gera breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Það er ekkert vont eða óheiðarlegt við að vilja breytingar á því. En þeir sem ætla sér að gera það verða að gera svo vel að vanda sig og auðvitað hljóta þeir að verða eins og allir að hlusta á ráðleggingar sérfræðinga á hinum mismunandi sviðum þegar þeir standa að þeim breytingum. Það þýðir ekki að setja bara undir sig hausinn og æða áfram án þess að hlusta á athugasemdir aðila sem lagt hafa mikla vinnu af mörkum við að greina þessi frumvörp, benda á ágalla á þeim og gera jafnvel tillögur til breytinga. Góð lagasetning felst ekki í því að loka augum og eyrum og æða áfram til þess eins að uppfylla einhver pólitísk slagorð.