140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni hans ræðu sem framan af var býsna góð og málefnaleg en svo dró heldur úr því því að ræða hv. þingmanns er annaðhvort flutt á röngum tíma eða hann er í réttum tíma með ranga ræðu. (Gripið fram í.) Það getur ekkert annað verið. Það hefur verið tekið tillit til nánast allra umsagna sem borist hafa varðandi þetta mál og ef þingmanninum er ekki kunnugt um það þá hafa verið fluttar breytingartillögur við frumvarpið á skjali sem má finna frammi í rekkanum sem undirstrika að verið sé að taka tillit til þeirra umsagna.

Atvinnveganefnd réð til sín sérstakan hóp af sérfræðingum til að fara yfir frumvarpið, ekki pólitískan hóp heldur hóp sérfræðinga utan þings, utan stjórnmála, til að rýna það enn betur en áður hefur verið gert. Það hefur verið tekið tillit til allra umsagna þeirra og athugasemda. Það hefur verið tekið tillit til athugasemda sem hafa komið frá útvegsmönnum sjálfum, frá fiskvinnslunni, frá þeim sem eiga að greiða gjaldið. Þær athugasemdir er hægt að finna í rekkanum frammi og ég ætla að skilja þetta blað eftir í ræðustólnum handa þingmanninum sem hefur greinilega ekki orðið var við það eða kynnt sér það hið minnsta því seinni hluti ræðunnar bar því miður ekki vott um það. Er þó þingmaðurinn vanur að kynna sér mál býsna vel sem hann fjallar um í þingsal og í ræðustól.

Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann um er afstaða hans til megininntaks frumvarpsins, þ.e. meginsjónarmiðanna, í fyrsta lagi hvort hann telji að innheimta eigi auðlindagjald af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar eins og fiskimiðunum, fiskstofnunum og í öðru lagi afstöðu hans til þeirrar aðferðafræði sem frumvarpið felur í sér, þ.e. gera það með tilteknu föstu gjaldi (Forseti hringir.) til að standa undir rekstri og kostnaði við greinina og síðan afkomutengdu gjaldi miðað við arðsemi greinarinnar.