140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:29]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að grundvallarmisskilningurinn sé fólginn í því að halda að við hér, ég og hv. þm. Helgi Hjörvar, eigum með einhverjum hætti að rétta puttann upp í loftið og finna út hvað okkur finnst að sé eðlileg afkoma í einhverri atvinnugrein, hvað sé eðlilegur hagnaður, hve miklu venjulegt fyrirtæki í góðum eða sæmilegum rekstri ætti að skila, og leggja síðan skatta út frá því. Ég held að í því felist alveg skelfileg tilhneiging til einhverrar þjóðfélagsverkfræði sem ég hef ekki áhuga á að taka þátt í.

Ég er til í að reyna að finna lausnir til að við getum hugsanlega einhvern tímann í framtíðinni náð saman um þau frumvörp sem hér er um að ræða. En ég held hins vegar að við séum því miður enn þá víðáttulangt frá því og mér finnast orð hv. þm. Helga Hjörvars hér í dag endurspegla það.