140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:21]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil bara segja að aðförin, eins og ég hef kallað það, að hv. þm. Jóni Bjarnasyni sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur mér orðið hvað mest vonbrigði í pólitík. Ég kann ekki að meta slíkt, ég verð að segja það alveg eins og er.

Stjórnunin í þessu máli og fiskveiðistjórnarfrumvarpinu er ekki samkvæmt málsmeðferð niðurstöðu þingmannanefndarinnar, það er mín eindregna skoðun. Ég hef líka sagt að það eru ákveðin mál, mikilsverð mál, þar sem maður á að leggja allt kapp á að reyna að ná málamiðlun og sátt. Hæstv. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur réttilega nefnt stjórnarskrána, hann hefur réttilega nefnt þingsköp, hann hefur réttilega nefnt skipan Stjórnarráðsins. Þessi mál öll hafa verið í uppnámi í vetur og sérstaklega núna í vor. Sama gildir um þau mikilsverðu mál sem hafa gríðarleg áhrif á afkomu landsbyggðarinnar, þau geta haft veruleg áhrif á tekjustofna sveitarfélaga, þetta svokallaða gjald, laun sjómanna, laun fiskverkafólks o.fl. Þetta vil ég allt skoða í þaula.

Það er álit mitt að hér sé um skatt að ræða en ég vil þó taka það skýrt fram að ég hef ekki farið í saumana á því.