140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:25]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég verð nú að viðurkenna, af því að ég hlustaði líka á andsvörin, að mér þótti kómískt að heyra hv. þm. Skúla Helgason gagnrýna breytingartillögu hv. þm. Atla Gíslasonar fyrir að þar ætti tekjustofninn að fara í ákveðin verkefni. Hv. þm. Skúli Helgason er væntanlega búinn að gleyma því að ríkisstjórnin er komin með plagg þar sem búið er að lofa upphæðum í ákveðin verkefni úr þessu frumvarpi. Það er væntanlega vegna einhverrar gleymsku hjá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar sem þeir gagnrýna hv. þm. Atla Gíslason á þessum forsendum, fyrir utan það að það er sérkennilegt framsalsvald á skattheimtu þarna þar sem einhverri fræðinganefnd er falið að útfæra hverjir eigi að fá skatt og hverjir ekki. Ég vil spyrja hv. þm. Atla Gíslason, sem þekkir þessa hluti ágætlega, hvort hann telji að það samræmist stjórnarskrá að einhver fræðinganefnd setjist niður og ákveði: Nei, þessi aðili á ekki að fá skatt heldur þessi.

Ég heyrði í hæstv. efnahags- og sjávarútvegsráðherra, og hvað hann er nú ekki, á fundi í Brimshúsinu segja eftirfarandi þegar menn bentu á að þetta kæmi illa niður á fiskveiðum þar sem aflaverðmæti væri lágt: Fræðinganefndin fer bara yfir þetta og tekur þetta út. Hvernig samrýmist það stjórnarskránni að framselja skattheimtu með þessum hætti? Ég vildi gjarnan vita hvað hv. þingmanni finnst um það.