140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:29]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þótti mjög áhugavert að heyra hv. þm. Atla Gíslason, sem þekkir vel til vinnubragða á stjórnarheimilinu, ræða vinnubrögðin í þessu máli. Ég hef skoðað þetta mál og hlustað á málflutning hv. stjórnarliða. Ég spyr: Hvernig hvarflar það að hv. stjórnarliðum eftir alla þessa meðgöngu að kanna ekki áhrifin á heimilin, því að við erum að tala hér um efnahagsmál? Þetta er grundvöllur atvinnulífs okkar. Jafnvel þó að við séum með fleiri egg í körfunni en áður er sjávarútvegurinn samt sem áður grundvöllurinn.

Hér koma menn fram með innantóm slagorð, þeir eru búnir að fara í allt þetta ferli, eins og lýst hefur verið og er ekki til fyrirmyndar, og eru ekki búnir að skoða áhrifin á heimilin. Menn hafa ekki skoðað áhrifin á bankana. Skiptir það máli? Já, reyndar, menn ætla að ná í peninga með því að selja bankana en þeir hafa ekki kannað (Forseti hringir.) hvaða áhrif það hefur á efnahag banka og þar af leiðandi söluverðmætið. (Forseti hringir.) Hvernig er þetta hægt, virðulegi forseti?