140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:32]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Mig langar í upphafi ræðu minnar að fjalla aðeins almennt um fiskveiðistjórnarmál og sjávarútvegsmál, en meginhluta ræðutímans ætla ég að nýta til að fjalla um þetta tiltekna frumvarp og þær athugasemdir og álitamál sem þar eru uppi og mér finnst vert að skoða nánar.

Þessi umræða hefur að sjálfsögðu verið löng. Við erum að tala um mikilvæg mál fyrir íslenskt samfélag og í sjálfu sér er eðlilegt að menn vilji ræða það í þaula. En ég held líka að í slíkri umræðu sé ágætt að velta fyrir sér og ræða það hversu mikilvægt það er að vera með gott fiskveiðistjórnarkerfi, vera með skynsamlega nýtingu auðlindarinnar og haga málum þannig að þjóðin fái sem mest út úr nýtingu auðlindarinnar. Tekist hefur verið á um það hér í þessum sölum og úti í þjóðfélaginu um langa hríð hvort það kerfi sem við höfum núna sé besta kerfið eða hvort gera þurfi á því breytingar og þá hvaða breytingar. Auðvitað er ekkert kerfi fullkomið en mér finnst mikilvægt í þessu að líta á kerfi sem stýrir stjórn fiskveiða út frá heildarhagsmunum, út frá almannahagsmunum.

Ég hafna því þegar því er haldið fram að þau sjónarmið sem ég hef uppi í þessu máli séu vörðuð af sérhagsmunum. Þvert á móti tel ég að með því að hafa fiskveiðistjórnarkerfi þar sem tryggð er skynsamleg nýting auðlindarinnar, þar sem fiskstofnar hafa færi á því að vaxa og endurnýja sig, þar sem veiðarnar ganga vel, þar sem fyrirtækin í sjávarútvegi ganga vel og skila þar með arði til þjóðarinnar, þá séum við með kerfi sem í sjálfu sér er gott að byggja á.

Í nokkra áratugi hefur verið rætt um það hvort tryggja þurfi betur með einhverjum hætti þátt þjóðarinnar í fiskveiðistjórnarkerfinu. Í upphafi þessarar aldar var tekist töluvert á um það hvort ástæða væri til þess, hvort kominn væri tími til þess eða hvort eðlilegt væri að lagt yrði á einhvers konar auðlindagjald. Skiptar skoðanir voru um það á þeim tíma hvort slíkt væri nauðsynlegt, hvort kerfið væri þannig þá að slíkt þyrfti ekki, hvort sá arður sem til þjóðarinnar færi í formi skatttekna og heilbrigðs viðskiptalífs dygði til að mæta þeim þörfum eða hvort hægt væri með einhverjum hætti að bæta þar í með því að setja á sérstakt auðlindagjald.

Niðurstaðan varð síðan sú að það var gert. Sett var á veiðigjald í upphafi aldarinnar og síðan hefur það verið þróað áfram. Hugmyndin var sú, og hefur held ég verið allar götur síðan, að auðlindagjald ætti að vera hóflegt fyrir útgerðina, fyrir útvegsmenn, og skila auknum tekjum af auðlindinni inn í þjóðarbúið.

Auðvitað þarf að greina það á hverju þetta gjald á að byggjast og við höfum hér verið að takast á um auðlindarentuna. Í þessu frumvarpi til dæmis og í skýrslu sem því fylgir er fjallað nokkuð um skattlagningu á auðlindarentu. Það er nefnilega svo að það kemur að því að þetta andlag geti orðið til þess að það breytist í skatt, og þegar það er þarf að líta til þess hvernig skattheimtu er háttað og uppfylla þarf ákveðin skilyrði um skattheimtu. Síðan eru reyndar önnur álitaefni þegar við komum að öðrum gjöldum sem ekki uppfylla það að vera skattar, eins og þjónustugjöld og slíkir hlutir ef við förum aðeins út í það, þá erum við að tala um að það gjald sem reitt er af hendi eigi að standa undir tiltekinni þjónustu og það lýtur ekki sömu lögmálum og væri um skattheimtu er að ræða.

Ég tel upphafspunktinn vera þann þegar kemur að sjávarútvegsmálum að ræða þau út frá almannahagsmunum. Við getum síðan deilt um það, og eins og ég sagði áðan hefur verið deilt um það hvernig þeir almannahagsmunir séu best tryggðir. Mín skoðun er sú að það sé gert með því að koma í veg fyrir ofveiði á stofnunum, með því að koma í veg fyrir offjárfestingu í greininni og með því að fyrirtækin séu heilbrigð og skili tekjum til samfélagsins. Það þýðir auðvitað að þau þurfa þá að geta skilað slíkum tekjum og það sé ásættanlegt að fyrirtækjunum gangi vel af því að þannig skilast tekjur inn í samfélagið. Það getur ekki verið svo að gengið sé svo harkalega gagnvart einni grein að möguleikar hennar til að fjárfesta raskist og að möguleikar hennar til að vaxa og dafna, kaupa ný veiðarfæri og skip raskist. Það hefur þær afleiðingar seinna að koma niður á ábatanum fyrir þjóðfélagið.

Þetta vildi ég segja í upphafi, ég hef reyndar sagt áður hér í ræðustól hversu miklu máli það skiptir í mínum huga að litið sé á fiskveiðistjórnarkerfið með þessu móti. Reyndar á það svo sem við um allar greinar að sjálfsögðu, en ekki síst þessa grein af því að um svo mikið grundvallarmál er að ræða fyrir okkur Íslendinga að það skiptir máli fyrir okkur að kerfið sé með þeim hætti að ábatinn af því verði ásættanlegur.

Ég vil síðan ræða um það frumvarp sem hér liggur fyrir. Mér þykir dálítið vont að fjalla um málið án þess að hafa almennilegan skilning á því hvernig fiskveiðistjórnarkerfinu verði háttað til lengri tíma litið gangi þær hugmyndir eftir sem er að finna í hinu málinu, þ.e. um stjórn fiskveiða. Ákveðnar röksemdir kunna að vera fyrir því að hafa þessi mál aðskilin, ég skal ekkert um það segja. En hitt er annað mál að það er töluvert erfitt að gera sér grein fyrir afleiðingum þessa frumvarps með þeirri miklu skattheimtu sem mér finnst það fela í sér, sem ég held að sé töluvert þung fyrir greinina, og á sama tíma horfast í augu við það að þær breytingar sem fyrirhugaðar eru geti raskað umhverfi hennar til lengri tíma litið og þar með standast ekki þær áætlanir sem hér eru uppi um tök greinarinnar á því að standa undir hækkuðu auðlindagjaldi.

Samkvæmt umsögnum um frumvarpið er nú þegar allt of langt gengið í álagningu veiðigjalda. Það sjáum við af þeim umsögnum sem fyrir liggja í málinu, það sjáum við til dæmis af hálfu þeirra sérfræðinga, hagfræðinga sem komu fyrir nefndina og unnu álit fyrir hana. Það sjáum við líka af áliti Landsbanka Íslands og má reyndar geta þess að ef þær tölur eru réttar sem þar koma fram mundi bankinn verða af 31 milljarði vegna þessara mála. Það má alveg setja það í samhengi við þau veiðigjöld sem stjórnvöld telja sig geta fengið út úr þessari grein og velt því fyrir sér hvort við séum ekki að tala um sama eigandann ef við getum orðað það þannig, sama ríkiskassann. Hann ætlar sem sagt að sækja verulega skatta til sjávarútvegsins en á sama tíma rýra gildi eignar sinnar í Landsbankanum. Mér finnst það nokkuð sem gengur frekar illa saman í mínu höfði.

Eftir því hefur verið tekið og um það rætt í þessum umræðum og kemur fram í nefndarálitum 1. minni hluta og 2. minni hluta um þetta mál að þegar þeir aðilar sem komu fyrir nefndina — ég hygg að það hafi komið fram hjá 2. minni hluta atvinnuveganefndar, hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni — og skiluðu umsögnum sínum hafi það verið í fyrsta sinn í ferli málsins sem umsagnar eða álits þeirra var leitað, það hafi sem sagt ekki verið gert á vegum ráðuneytisins á fyrri stigum málsins. Ég hygg að það sé nú mjög gagnrýni vert að ekki hafi verið búið að tryggja aðkomu aðila fyrr að þessu ferli heldur hafi það verið gert fyrst á vegum þingnefndarinnar.

Þá vakna spurningar um þau álit sem liggja fyrir atvinnuveganefnd sem má finna í gögnum málsins og snúa fyrst og fremst að lagalegum þáttum þess. Ef það er ætlun hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og meiri hluta atvinnuveganefndar að fá svona mál samþykkt hér á Alþingi og sé það einbeittur vilji ríkisstjórnarflokkanna að leggja verulega auknar byrðar á sjávarútveginn í hækkun veiðileyfagjalda, þá skulum við a.m.k. hafa það þannig að búið sé að kanna hver áhrifin verði og hvort rétt sé á málum haldið, hvort rétt sé gert, hvort hinn lagalegi grundvöllur í frumvarpinu sé traustur. Ég vil beina því til hv. atvinnuveganefndar í fullri vinsemd að líta á þessar umsagnir mun alvarlegri augum en mér finnst hún hafa gert ef marka má álit meiri hluta nefndarinnar.

Hér er að finna umsagnir frá sérfræðingum á sviði lögfræði sem hafa af því verulegar áhyggjur að ekki sé nægilega vel gengið frá gjaldtökugrunninum, og þá er ég ekki að tala um upphæð gjaldsins, það er efni í aðra ræðu, en ég ætla að einbeita mér að þessu atriði. Ég tek það fram, svo að það sé sagt, að í mínum huga er þetta auðvitað allt of hátt gjald. Ég ætla að láta það liggja á milli hluta og einbeita mér heldur að þessu álitamáli sem er hvort hér sé staðið rétt að málum þegar kemur að grundvelli gjaldsins.

Í nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar, virðulegi forseti — það fylgir því nú þegar um svona stórt mál er að ræða að maður er með meira af gögnum í ræðustól en æskilegt væri og þá þarf maður að finna það sem — já, hér kemur það. Fjallað er stuttlega um stjórnskipuleg álitamál í áliti meiri hluta nefndarinnar. Imprað er á þremur atriðum sem finna má sem athugasemdir, til dæmis í áliti frá Bonafide lögmönnum, með leyfi forseta:

„Í fyrsta lagi benda lögmannsstofurnar á að lagaheimild til skattlagningar þurfi að vera skýr … Í öðru lagi benda þær á að afturvirk skattlagning sé óheimil … Í þriðja lagi benda þær á að framsal skattlagningarvalds sé óheimilt …“

Þetta eru allt saman þættir sem við þekkjum á sviði lögfræði og skipta verulega miklu máli í þessum efnum. En það sem vekur athygli er að meiri hluti atvinnuveganefndar hafnar nánast öllum þessum athugasemdum lögmannanna án þess að um nógu ríkan rökstuðning fyrir slíku sé að ræða. Ég tel að ekki sé hægt ganga þannig frá málinu að það sé bara afgreitt með öllum þeim athugasemdum sem koma frá lögfræðingunum og málið sé afgreitt með þeim hætti að grunnurinn sé nægilega sterkur og ekki sé ástæða til að athuga það nánar.

Mér finnst það ekki ganga og ég beini þeim eindregnu tilmælum til meiri hluta atvinnuveganefndar að skoða það rækilega milli umræðna hvort þetta standist. Það eru fjöldamörg dæmi í dómasafni Hæstaréttar sem varða skattlagningu og það eru einnig fjöldamörg dæmi um framsal valds í dómasafni Hæstaréttar fyrir utan afturvirkni lagaákvæða. Ég held að til að koma hreinlega í veg fyrir að hér verði mistök í lagasetningu sé það alveg einboðið fyrir meiri hluta atvinnuveganefndar að fara rækilega yfir þessi atriði og kanna það hvort þetta sé gert rétt.

Ég hjó eftir því í andsvari við ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar, hv. þingmaður sagði að hann hefði löngum haft áhyggjur af framsali reglugerðarvalds í lagasetningu. Ég get tekið undir það með honum, ég hef haft þá skoðun töluvert lengi og það hefur ekkert að gera með sitjandi ríkisstjórn eða fyrri ríkisstjórnir, ég tel að það hafi því miður verið allt of mikið um það að tilteknum þáttum í lagasetningu hafi verið vísað til framkvæmdarvaldsins í reglugerðarákvæðum. Það er ákveðin hætta á ferðum þegar verið er að tala um grundvallarmál, ég er ekki að segja þetta í samhengi við þetta mál heldur einungis benda á það hversu miklu máli það skiptir að ekki sé verið að framselja frá sér grundvallarhlutum.

Í áliti frá Bonafide lögmönnum sem liggur fyrir nefndinni er fjallað stuttlega um veiðileyfafrumvarpið, reyndar er líka verið að fjalla um stóra málið en ekki er ástæða til að ræða það af því að það er ekki til umfjöllunar nú. Þar er vísað til tveggja ákvæða, reyndar er bara vísað í 77. gr. stjórnarskrárinnar en það má reyndar einnig vísa í 40. gr. hennar og það er gert annars staðar í öðru áliti.

Í álitinu segir að veiðigjöldin hafi öll einkenni skattlagningar. Það segir jafnframt að lagaheimild skattlagningar þurfi að vera skýr og ótvíræð. Reikniregla varðandi sérstaka veiðigjaldið sé óljós og matskennd og gjaldstofn afar óskýr. Hér er verið að vísa til tiltekinna ákvæða frumvarpsins, ég er ekki með það hér alveg á hreinu, ég held að það sé 3. gr. sem fjallar um reikniregluna.

Þá er einnig gagnrýnt í álitinu afturvirkni skattlagningar samkvæmt sömu grein stjórnarskrárinnar, í 2. mgr. 77. gr., að það sé ljóst af frumvarpinu að fyrirhugað sé að innheimta skatt á þessu ári á grundvelli upplýsinga um tekjur sem stofnuðust þegar gjaldskylda var ekki til staðar. En samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að byggt sé á gögnum Hagstofunnar sem ekki var aflað í þessum tilgangi og má einnig gagnrýna það og þarf einnig að fara yfir hvort það standist, hvort það séu þær upplýsingar sem hægt er að nýta í þessum tilgangi. Síðan er í þriðja lagi nefnt að óheimilt sé að framselja skattlagningarvald til stjórnvalda.

Allt eru þetta atriði sem við verðum að taka mjög alvarlega. Ítarlegustu umfjöllunina um þessa þætti er að finna í áliti sem kemur frá Lex lögmönnum, það er mjög ítarlegt hvað þetta varðar og jafnframt um ýmis önnur atriði í málinu. Þá eru einnig athugasemdir í þessa veru frá Mörkinni lögmannsstofu og frá Helga Áss Grétarssyni sem er lektor í háskólanum og sérfræðingur á sviði auðlindaréttar.

Ég held að einboðið sé, virðulegi forseti, að taka þurfi þessi tilteknu lagalegu atriði til mjög rækilegrar skoðunar á milli umræðna, alveg án tillits til þess, eins og ég segi, hvað mönnum kann að finnast um það hvernig málið er að öðru leyti í pottinn búið. Það er bara ekki hægt að afgreiða málið þegar svo alvarlegar athugasemdir um þennan þátt málsins liggja fyrir og að ekki sé lengra gengið í meirihlutaálitinu í að rökstyðja það af hverju því hefur ekki verið breytt.

Þær breytingartillögur sem liggja fyrir nefndinni við þetta mál snúa að sjálfsögðu að ýmsum þáttum þess, þær snúa meðal annars að þessari veiðigjaldsnefnd sem frumvarpið fjallar um. Og þar er verið að bæta í verkefni nefndarinnar frá upphaflegu frumvarpi. Það þýðir auðvitað að enn frekari ástæða er til að meta það hvort of langt sé gengið í framsali valds. Samkvæmt breytingartillögu er gert ráð fyrir að:

„Veiðigjaldsnefnd skal viðhafa viðvarandi könnun á því hvort haga megi öflun upplýsinga og úrvinnslu gagna þannig að sérgreina megi útreikning rentu frekar en gert er ráð fyrir í lögum þessum, t.d. eftir fisktegundum, útgerðarformum eða tegund aflaheimilda, og gera tillögur til ráðherra um breytingar á lögum, reglum eða þjónustusamningum telji hún tilefni til.“

Að mínu áliti er þegar um töluvert framsal að ræða í frumvarpinu til veiðigjaldsnefndar. Það er þegar um verulegt framsal að ræða og mér finnst meiri hlutinn vera að ganga lengra hvað þetta varðar og ég held, frú forseti, að fara þurfi rækilega yfir það.

Mig langar líka til að fá upplýsingar um það, ég vonast til þess að ég fái skýringar á því einhvern tíma í umræðunni eða þá milli umræðna, hvort það hafi verið kannað af hálfu ráðuneytisins í vinnslu málsins þeir lagalegu þættir sem hér eru til umfjöllunar. Það hefði nefnilega verið hægt að koma í veg fyrir allar þessar alvarlegu athugasemdir ef menn hefðu unnið þetta í ráðuneytinu frá grunni. Ég hef áhuga á að vita hvort slíkir sérfræðingar voru fengnir til þess.

Í frumvarpinu er talað um nefnd ráðherra, og skýrsla nefndarinnar liggur hérna fyrir, um skattlagningu í sjávarútvegi. Þar sátu tveir menn og ein kona. Ég veit ekki hvort þar er um sérfræðinga í stjórnskipunarrétti að ræða enda skiptir það engu máli, hægt er að leita álits hjá þeim sem gerst þekkja til í málum á hvaða stigi sem er. Ég tel að það hefði verið mjög til bóta ef það hefði verið gert áður en frumvarpið var lagt fram. Og hafi það verið gert vil ég gjarnan fá að vita hvort einhver gögn liggi fyrir um það.

Mig langar til að vita hvort einhver lagaleg gögn séu fyrirliggjandi í aðra átt en finna má í fylgiskjölum með málinu eftir vinnslu nefndarinnar, hvort aðrir lögfræðingar eða sérfræðingar hafi haldið því fram fyrir nefndinni að það hafi verið óhætt, ég ætla ekki að kveða sterkar að orði en það, að ganga þannig frá málinu að það standist þau ákvæði er varða skýrleika skattlagningar.

Það má nefnilega líka ráða það af skýrslu þeirrar nefndar sem ég er að vísa til að hún talar um þetta mál sem skatt, þótt hér sé töluvert talað um auðlindarentu, þá er orðið skattur notað yfir þetta eða skattlagning auðlindarentu. Það kemur fram á nokkrum stöðum í skýrslunni og mér finnst það renna frekari stoðum undir það, og er þá hægt að fá skýringar á því, að fara þurfi sérstaklega varlega þegar kemur að þessum atriðum í meðferð málsins.

Ég er að fara yfir tæknileg atriði sem varða framsetningu málsins. Hægt væri að halda margar ræður, ég gæti haldið margar ræður og fyrirlestra um þá pólitík sem liggur í málinu og hvernig best væri að halda á því til lengri tíma, en vilji menn fara þá leið sem í frumvarpinu felst bið ég nefndina enn og aftur í fullri vinsemd að fara vel yfir þessa þætti.

Síðan þegar kemur að upphæð gjaldsins hef ég ekki fengið skýringar á því, það getur vel verið að þær berist nú síðar í umræðunni, hvernig standi á vilja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að hækka gjaldið svona mikið eins og gert var með framlagningu frumvarpsins miðað við það áform sem áður hafði verið uppi af hálfu ríkisstjórnarinnar þegar kom að veiðileyfagjaldi. Nú erum við að tala um það að um 4,5 milljarðar kr. eru innheimtir í veiðileyfagjald. Til viðbótar greiðir greinin auðvitað skatta og ég hygg að þar séum við að tala um 5 milljarða kr. í tekjuskatt. Greinin greiðir því núna um 10 milljarða kr. í samanlögð gjöld. Við þurfum að gæta að því, Íslendingar, þegar við ákveðum að leggja skatt á tilteknar atvinnugreinar eða eins og meiri hlutinn hér heldur fram á tilteknar auðlindir — reyndar hefur það verið rætt hér á fyrri árum og hefur komið fram í skýrslum sem skrifaðar hafa verið að auðlindarentur mætti leggja á fleiri auðlindir, ég ætla ekki að hafa neina skoðun á því í þessu máli — að gæta þurfi líka að samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs.

Íslendingum hefur nokkuð verið hrósað fyrir fiskveiðistjórnarkerfi okkar, okkur hefur nokkuð verið hrósað á erlendri grund — og það er nú svolítið skemmtilegt þegar það gerist — fyrir að vel hafi tekist til með veiðarnar, að okkur hafi tekist að koma í veg fyrir óhagkvæmni í sjávarútvegi og að okkur hafi tekist að koma í veg fyrir stórkostlega ríkisstyrki í sjávarútvegi, sem ég vona svo sannarlega að muni ekki vera þörf fyrir að taka upp hér. Við þurfum þá, þegar við lítum til þessara þátta, að gæta að því að íslenskur sjávarútvegur er auðvitað í samkeppni á alþjóðlegum mörkuðum og það er ekki hægt að leggja svo þungar byrðar á hann að það raski þeirri samkeppnisstöðu. Við verðum alltaf að gæta að því þegar við horfum til slíkra hluta að ganga ekki svo langt fram að það raski samkeppnisstöðu.

Ég er ein af þeim sem telja eðlilegt að útgerðin greiði veiðileyfagjöld, ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það sé eðlilegt. En ég vil líka að það sé hóflegt, að það raski ekki samkeppnisstöðu og það verði ekki til þess að draga úr getu greinarinnar til að fjárfesta og endurnýja sig. Mér finnst það hljóti að vera útgangspunktur. Ég trúi ekki öðru, virðulegi forseti, en að við séum sammála um að svo sé. Þegar fyrir liggja umsagnir um þetta mál, í sumum tilvikum smitast umsagnirnar reyndar yfir í hitt málið, þá er því haldið fram af umsagnaraðilum — ég tek fram að ég sit ekki í atvinnuveganefnd og hef ekki getað spurt spurninga þar — og menn hafa sett fram þá skoðun að svo mikil skattheimta muni hafa mjög alvarleg áhrif á stóran hluta útgerðarinnar. Menn hafa verið að mæta því með einhverjum hætti í breytingartillögum, en ég hygg þó, miðað við að hér virðist vera um aðlögun að ræða og gjaldið hækki á næstu árum, að engu að síður sé of langt gengið með þeirri aðferð sem lögð er til.

Í frumvarpi til fjárlaga og reyndar í fjárlögunum sjálfum er gert ráð fyrir um 11 milljörðum í tekjur af veiðileyfagjaldi. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kom síðan með frumvarp sem var með mun hærri tölu og enn, þrátt fyrir breytingartillögur meiri hluta nefndarinnar, erum við hér með tölu sem er langt umfram það sem var í fjárlögunum. Ég held að við verðum að gæta okkar einstaklega vel þegar að þessu kemur. Það er ekki augljóst, hæstv. forseti, og það þekkjum við af reynslunni, að greinum gangi alltaf vel. Ef því er síðan svarað til að það sé breytileg reikniregla í gjaldinu vil ég benda á það að með því að kippa stoðunum undan eðli kerfa getum við lent í þeim vanda sem við lentum í á síðustu öld. Það tók okkur langan tíma að komast út úr honum og olli hér miklum deilum í þjóðfélaginu og í þingsölum og víðar. Menn tókust verulega á um það þegar kvótakerfið var sett á og þegar framsalið var sett á o.s.frv. og ég ætla ekkert að rekja það hvernig á því var haldið.

Það kom hins vegar fram og ég kynnti mér það nú nýlega í þeim þingræðum sem haldnar voru þegar framsalið var lagt á að þáverandi sjávarútvegsráðherra, Halldór Ásgrímsson, sagði það beinlínis í þingræðum að það mundi hafa þær afleiðingar að fyrirtækin mundu væntanlega stækka og það hefði auðvitað byggðarlegar afleiðingar líka. Það var því gert með það fyrir augum að auka hagkvæmni í sjávarútveginum. Það var gert með það fyrir augum, eins og ég vil líta á þetta, að gæta að almannahagsmunum, gæta að heildarhagsmunum, og þannig ber okkur skylda til að líta á þetta mál. Þess vegna tel ég að afraksturinn af veiðileyfagjaldinu, sem á að vera hóflegt, eigi að renna í ríkissjóð. Ég er ekki þeirrar skoðunar að ákveða eigi fyrir fram hvert sá arður á að fara. Ég tel að hann eigi að renna í ríkissjóð og það sé síðan ríkissjóðs að ákveða það hvernig mæta skuli einstökum þáttum í þeim ákvörðunum sem hann tekur á vettvangi fjárlaganna og annars staðar í ríkisrekstrinum. Ég tel það hina eðlilegu gjörð í þessum efnum, það er mín skoðun.

Gætum okkar þegar við förum í þessi mikilvægu mál. Ég verð líka að segja það, hæstv. forseti, af því að mikið er talað um deilur í þinginu í grundvallarmálum, það eru svo sem engar fréttir að við höfum um áratugaskeið tekist á um fiskveiðistjórnarmál í þinginu og við höfum tekist á um þau frá öllum endum ef svo má segja. Einnig hefur verið tekist á um þau á vettvangi stjórnarskrárinnar. Þótt ekki hafi tekist fram til þessa að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrá, þá hygg ég nú að um það standi ekki lengur ágreiningur í þingsölum. Ég hygg að það sé á stefnuskrá allra stjórnmálaflokka, a.m.k. get ég sagt að það hefur lengi verið stefna Sjálfstæðisflokksins að slíkt sé gert og ég hugsa að við þurfum ekki að vera í miklum ágreiningi um það.

Þótt við höfum verið í þessum mikla ágreiningi í sjávarútvegsmálum allan þennan tíma held ég samt sem áður að það sé vont fyrir okkur Íslendinga að vera stöðugt að rífast um grundvallarmál sem skipta okkur svo miklu. Ég held að mjög æskilegt væri fyrir okkur að ná einhvers konar samkomulagi um nokkur grundvallarmál. Ég hef ekkert svar við því núna, hæstv. forseti, hvernig slíku samkomulagi á að ná, ég segi það bara hreint út, ég hef ekki svar við því. En grundvallarþættir í rekstri auðlinda þjóðarinnar, einhvers konar sátt og samkomulag um afnám hafta og þetta grundvallarmál sem varðar umgjörð þjóðfélags okkar, ég held að töluvert sé á sig leggjandi að reyna að ná einhvers konar lágmarkssamkomulagi um það.

Það hefur verið gert á vettvangi sjávarútvegsins á þessu kjörtímabili, það verður að segja það hreint út. Það var gert í þeirri sáttanefnd sem skipuð var og komst að nokkuð sameiginlegri niðurstöðu. Þar gáfu menn eftir og ég býst við að ekki hafi allir verið ánægðir með þær niðurstöður, ekki í mínum flokki, ekki í öðrum flokkum heldur. Það varð samkomulag, menn komust að ákveðnu samkomulagi og skrifuðu undir það. En það hefði verið mun betra, hæstv. forseti, ef við hefðum einhvern veginn getað haldið áfram á þeim nótum. Í stóra málinu sýnist mér að töluvert sé vikið frá þeim niðurstöðum sáttanefndarinnar sem var að finna í því áliti en ég held að betra væri fyrir okkur ef við reyndum að halda áfram að ná einhvers konar lágmarkssamkomulagi.

Þegar við lítum á þetta mál enn og aftur liggur það fyrir að alvarlegar athugasemdir hafa komið fram af hálfu lögfræðinga um hvort það standist hvernig gjaldið er sett fram í frumvarpinu. Ég tel að því hafi ekki verið svarað, alla vega fyrir minn hatt finnst mér þær skýringar í meirihlutaálitinu ekki nægjanlegar, mér finnst ekki nóg að menn segi bara að þetta sé í lagi. Ég tel að menn þurfi að bregðast einhvern veginn við þeim álitaefnum sem þarna koma fram. Ég tel einnig að nauðsynlegt sé að menn fari rækilega yfir þær breytingartillögur sem hér eru kynntar, að sérfræðingar séu líka fengnir til að fara rækilega yfir þær. Það á einnig við um þær hugleiðingar sem hafa verið um hugsanlegar breytingar á málum í heild, að mjög brýnt er að menn fari rækilega yfir þær.

Hæstv. forseti. Ég hef ekki talað um þær umsagnir sem koma frá einstökum útgerðum eða hagsmunaaðilum, en ég hef einbeitt mér að þeim álitamálum sem sérfræðingar hafa sett fram. Ég hef heyrt það í þessari umræðu, ég hef fylgst náið með henni, að lögmenn hafi verið að vinna fyrir tiltekna aðila. Ég vil bara hafna því. Þegar menn setja fram þykkar álitsgerðir og leggja fram rök á borðið þá er ekki hægt að afgreiða það þannig að þeir séu að vinna fyrir tiltekna aðila, það er bara ekki hægt. Það er alþekkt að lögmenn vinna að sjálfsögðu fyrir umbjóðendur sína en hér erum við að tala um álitamál sem snúa að stjórnskipun, við erum að tala um framsal valds og við erum að tala um grundvallarþætti sem eru settir fram af góðum vilja og til að bæta málin. Mér finnst því æskilegt, hæstv. forseti, að atvinnuveganefnd skoði þetta nákvæmlega.

Ég vil líka segja að miðað við þær umsagnir sem liggja fyrir í málinu — það er frekar erfitt að finna umsagnir sem hrósa þessu máli í þeim pappírum sem ég er með undir höndum — þá sé ég nú enga ástæðu til þess að fara að hraða afgreiðslu málsins. Ég held að það þurfi að fara mun betur yfir þetta. Ég held að það þurfi líka að fá botn í það hvort það sé virkilega vilji meiri hlutans hér að afgreiða þetta stóra mál. Ég hefði viljað að við gætum náð samkomulagi um að láta það liggja, það er bara hreint ekki tilbúið til neinnar meðferðar. Það situr enn þá í atvinnuveganefnd og við hér, aðrir þingmenn, höfum takmarkaðan aðgang að því sem þar fer fram og það mál kom allt of seint inn í þingið. Það hefur hlotið verulega mikla gagnrýni, og mér finnst ekki hægt, hæstv. forseti — (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁI): Forseti biður um að hv. þingmenn hafi hljóð í hliðarsal.)

Já, þeir geta líka komið hingað inn í salinn og hlustað á það sem hér fer fram.

Hæstv. forseti. Nú missti ég aðeins taktinn. Ég held að ekki sé hægt að koma með mál af þessum toga svona óskaplega seint hingað, menn þurfa að láta málin þroskast. Við vitum hvernig fór fyrir stóra sjávarútvegsmálinu í fyrra. Það kom líka allt of seint inn til þingsins til afgreiðslu, allt of seint. Við getum ekki verið að afgreiða grundvallarbreytingar á fiskveiðistjórnarkerfi á einhverri hraðferð, það er bara ekki hægt, til þess er málið allt of mikilvægt. Við þurfum að bera miklu meiri virðingu fyrir stærð málsins.

Veiðileyfahugmyndin er dálítið annars eðlis. Ég ætla að segja það enn og aftur að ég tel þessi veiðileyfagjöld allt of há, ég hef fyrir því mín rök. En veiðileyfahugmyndin er allt annars eðlis en þessi stórkostlega umbreyting sem verið er að kynna með frumvarpinu um stjórn fiskveiða. Það er annars konar mál. Það gengur auðvitað ekki að koma fram með slíkt mál á síðustu stundu og það gengur heldur ekki, hæstv. forseti, að verið sé að upplýsa það í þingnefndum að menn hafi ekki haft hugmynd um hvað stæði í þessu frumvarpi og væru þá fyrst að fá eitthvert samtal við stjórnvöld um málið.

Það er reyndar miklu eðlilegra að það samtal sé við þann aðila sem leggur málið fram, sem getur með miklu skýrari hætti væntanlega svarað fyrir það, og það er ósköp eðlilegt að hann geri það. Hann hlýtur að hafa þær röksemdir á reiðum höndum til að geta átt slíkt samtal við þá aðila sem vilja leggja gott til málanna. Það er áberandi að víða hafa athugasemdir borist um frumvarpið um stjórn fiskveiða, þannig að ég tel það alveg einboðið að það mál verði lagt til hliðar og menn hætti að tala um það hér á miðju sumri þegar starfsáætlun þingsins er fallin úr gildi, þegar þingið ætti með réttu að vera komið í sumarleyfi, þegar forsetakosningar eru í nánd. Og það væri líka lágmarkskurteisi af hálfu Alþingis að gefa forsetakosningunum rými í þjóðfélaginu en ekki að láta það snúast um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Það hlýtur að skipta okkur Íslendinga máli að forsetakosningarnar fái eitthvert svigrúm hér í umræðunni, það hlýtur að vera.

Ég held því að það sé alveg augljóst að ekki verði haldið áfram með það mál. Það mál verður að leggja til hliðar og ég skil bara ekkert í því, hæstv. forseti, hvernig stendur á því að meiri hlutinn vill ekki fallast á það. Það er ekki eins og þetta sé síðasta þingið sem haldið verður. Það er ekki eins og við eigum ekki eftir að koma hér aftur saman síðar. Ég geri ráð fyrir að Alþingi Íslendinga muni starfa hér mörg ár til viðbótar til að fjalla um ýmis mál. Þetta mál er ekki tilbúið og þarf að fara aftur til meðferðar. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þarf að fara miklu betur yfir það og hann þarf líka að velta fyrir sér hvort allar þessar breytingar séu nauðsynlegar.

Mér hefur heyrst á mörgum þingmönnum stjórnarliða að meginþunginn sé á því að frekari arður fáist úr auðlindinni. Nú er þegar búið að leggja töluvert hærri veiðileyfagjöld á en voru áður. Við þurfum að gæta okkar á því að auðlindin hafi þá tök á því að skila þeim arði sem menn ætlast til að hún geri. Og ekki gleyma því að arður af veiðum er ekki bara í formi veiðileyfagjalda, hann er líka í formi þess að fyrirtæki greiði skatta og skyldur. Hann er í formi þess að veiðarnar séu skynsamlegar. Fiskveiðistjórnarkerfið á að vera þannig að við getum til dæmis fengið þær fréttir sem við fengum í dag að hægt sé að auka þorskkvótann, að stofnarnir séu það heilbrigðir að hægt verði að auka kvótann um 35 þúsund tonn. Við skulum gæta okkar verulega á því þegar við erum í þessari umræðu að ganga ekki svo hart fram að við séum að stefna þessu í einhverja hættu, við skulum ekki gera það.

Ég vil þess vegna — af því ég hef verið að einbeita mér að veiðileyfagjaldinu — enn og aftur beina þeim vinsamlegu tilmælum til meiri hluta atvinnuveganefndar að líta betur til þess þáttar málsins, að líta hreinlega til þess hvort grunnur þessarar lagasetningar sé nógu traustur til þess að forða því að við fáum hér dómsmál um þetta því að það yrði ekki nokkrum einasta manni til góðs.