140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:14]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir frekar dapurlegt að hv. þingmaður hafi kosið að hefja þessa sérhagsmunaræðu sína hér. Ég held ég hafi einmitt tekið það sérstaklega fram í ræðu minni og margoft að ég hef ávallt litið á þetta mál út frá almannahagsmunum. Hann getur haft sínar skoðanir á því í hverju slíkir almannahagsmunir felast en ég bið hv. þingmann um að leggja mér ekki orð í munn hvað þetta varðar. Ég bið hann einlæglega að gera það ekki.

Hv. þingmaður veit líka ósköp vel, svo þingreyndur sem hann er, hvers vegna málum er svona háttað í þinginu. Það hefur ekki náðst eitt einasta samkomulag um það við meiri hlutann hvernig ljúka eigi þingstörfum. Menn koma allt of seint fram með mál, illa undirbúin og ætlast til þess að þau séu bara öll afgreidd einn, tveir og þrír. Það er ekki hlutverk okkar í stjórnarandstöðunni að samþykkja mál sísvona.

Ég kem með vinsamlegar ábendingar um hvernig bæta megi úr einstökum þingmálum. Ég held ég hafi líka margoft sagt það, virðulegi forseti, að ég er aldeilis ósammála upphæð veiðigjaldsins. Ég tel að þessir 11 milljarðar séu of há upphæð en ég geri mér hins vegar grein fyrir því að mikill vilji er til þess hér að leggja mun hærri veiðigjöld á. Ég kem bara með þá vinsamlegu ábendingu að gæta að grunni gjaldsins. Ég held ég hafi nefnilega farið nokkuð rækilega yfir það í máli mínu að það verði gert. Ég hafna því algjörlega að með því sé maður að hlaupa út undan sér.

Er það ekki eðli þingstarfsins, frú forseti, að reyna að leggja gott til málanna í umræðum, að leiðbeina meiri hlutanum og hjálpa til við að laga mál? Er það ekki skylda þingmanna? Eða hvað?