140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:16]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er greinilega viðkvæmt að snerta við sannleikanum í öllum þessum málatilbúnaði. Í fyrra voru hér tillögur um það að Landssamband íslenskra útvegsmanna, sem býr við bestu afkomu Íslandssögunnar af einkarétti sínum á aðgangi að auðlindinni, ætti að borga 14 kr. fyrir hvert þorskkíló sem þeir hefðu einkarétt á að draga úr sjó. Þá stóðu þingmenn Sjálfstæðisflokksins hér dag og nótt og prúttuðu gjaldið niður í 10 kr. fyrir LÍÚ.

Nú fallast þingmenn Sjálfstæðisflokksins hins vegar á að innheimta megi 25 kr. en ætla að standa hér dag og nótt til að koma í veg fyrir að gjaldið verði liðlega 30 kr. fyrir kíló sem menn leigja, ekki á tvöföldu því verði, ekki á þreföldu því verði, heldur á margföldu því verði á frjálsum markaði.

Þetta er allur galdurinn sem hér fer fram. Það er málþóf til að prútta um nokkra milljarða í aukaafslátt fyrir LÍÚ í boði Sjálfstæðisflokksins. (Forseti hringir.) Og ég spyr hv. þingmann enn: Hversu marga daga og hversu margar nætur (Forseti hringir.) ætla þingmenn Sjálfstæðisflokksins að standa hér í þessum prúttleiðangri sínum?