140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:27]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er þeirrar skoðunar að slík gjöld — reyndar vil ég meina að þetta sé skattur, að verið sé að leggja skatt á — eigi að renna beint í ríkissjóð. Ég tel hins vegar að það þýði ekki að ekki sé hægt að bæta þeim byggðarlögum sem halloka hafa farið þetta upp með öðrum hætti. Það höfum við reyndar gert í gegnum tíðina. Ég tel eðlilegt að það sé gert og menn tryggi að byggðirnar njóti þess að útgerðin hjá þeim gangi vel. En ég tel rétt að þegar um er að ræða skatta eigi þeir að renna beint í ríkissjóð.

Ég vil benda á að þessi skattur leggst fyrst og fremst á útgerð og hún er ástunduð um allt land. Það vill svo til að í Reykjavík er líka rekin blómleg útgerð og mér finnst við Reykvíkingar stundum gleyma því hve vel hefur gengið að reka útgerð hér. Við erum með glæsilega höfn, Reykjavíkurhöfn, sem glóði reyndar í gær, full af fiskveiðiskipum, og var mjög glæsilegt á að horfa.

Í frumvarpi fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, hv. þm. Jóns Bjarnasonar, var gert ráð fyrir því að Reykjavík ætti til dæmis ekki að fá neinn ágóða af útgerð sinni. Ég tel að menn séu ekki á réttri leið með þetta. Það er langeðlilegast að ríkið fái þessar tekjur í ríkissjóð og síðan verði mótvægisaðgerðir kynntar með öðrum hætti af ríkisstjórn.